Áfram

26. apríl 2012
Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa: Yfir 142 milljónir til samfélagsverkefna á Austurlandi 2011

Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum afhentu í gær rúmlega 27 milljónir króna í samfélagsstyrki til rúmlega þrjátíu félagasamtaka og stofnana á Austurlandi. Á síðasta ári námu samfélagsstyrkir Fjarðaáls og samfélagssjóðsins hér á landi rúmlega 142 milljónum króna, sem var varið  til um 50 aðila.

Tveir stærstu einstöku styrkirnir í fyrra runnu til Vina Vatnajökuls annars vegar og Háskólans í Reykjavík hins vegar, en HR vinnur um þessar mundir að því að efla þekkingarsamfélagið í Fjarðabyggð í samstarfi við Verkmenntaskóla Austurlands og Þekkingarnetið.
 
Þeir sem hlutu hæstu styrkina að þessu sinni voru Landeigendafélag Jökulsár á Dal, Kirkju- og menningarmiðstöðin á Eskifirði, Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar og Höttur á Egilsstöðum. Meðal annarra styrkþega má nefna Jasshátíð Austurlands, Vídeólistahátíðina Hreindýraland.is, Foreldrafélag Seyðisfjarðarskóla, Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað og Náttúrustofu Austurlands, svo fáeinir séu nefndir.
 
Landeigendafélag Jökulsár á Dal hlaut styrk að upphæð 3,5 milljónir króna frá Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum í verkefni sem hefur að markmiði að byggja Jökulsá upp sem laxveiðiá. Áin hefur sem kunnugt er verið stífluð við Kárahnjúka og stendur nú til auka seiðasleppingar í ána og byggja laxastiga. Standa vonir til að unnt verði að gera ána að spennadi laxveiðiá fyrir innlenda og erlenda veiðimenn.
 
Foreldrafélag Seyðisfjarðarskóla hlaut fjárstuðning til kaupa á tölvubúnaði. Búnaðurinn er ætlaður til nota fyrir bæði nemendur skólans en einnig á námskeiðum sem aðrir í bænum sækja. Í því sambandi má m.a. nefna  endurmenntunarnámskeið í skólanum fyrir fullorðna, fatlaða einstaklinga og fleiri aðila.
 
Styrknum til Hollvinasamtaka Fjórðungssjúkrahússins á Neskaupstað verður varið í að rannsaka árangur offitumeðferðar á sjúkrahúsinu. Í umsókn hollvinasamtakanna um styrkinn var bent á þá staðreynd að Íslendingar eru nú meðal feitustu þjóða heims. Til að stuðla að sem bestum árangri í meðferð við offitu sé nauðsynlegt að kanna árangur af þeim meðferðarúrræðum, sem boðið er uppá í heilbrigðiskerfinu.
 
Náttúrustofa Austurlands mun nota styrkinn til að bæta aðgengi að Fólkvanginum í Neskaupstað, en hann var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Fólkvangurinn var formlega friðlýstur árið 1972 og verður því 40 ára á þessu ári.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Frá styrkafhendingunni


Fulltrúar hinna ýmsu samtaka mættu í Kirkju- og menningarmiðstöðina til að taka á móti styrkjunum.