Áfram

28. nóvember 2011
Alcoa og stjórnvöld í Québec gera með sér nýja þróunaráætlun

Samkomulagið, sem tilkynnt var um í byrjun nóvember, hefur að markmiði að auka arðsemi í rekstri þriggja álvera Alcoa í Québecfylki í Kanada og draga úr umhverfisáhrifum frá starfsemi þeirra. Gerð hefur verið 5 ára fjárfestingaráætlun um verkefnið og hljóðar kostnaðaráætlun þess upp á um 2,1 milljarð bandaríkjadala, eða um 600 milljarða króna.

Á næstunni verður hafist handa um margvíslegar endurbætur á álverum Alcoa í Baie-Comeau, Deschambault og Becancour í Quebec. Markmiðið er að lækka rekstrarkostnað álveranna um 13 prósent, sem skila mun um 10 prósenta kostnaðarlækkun að meðaltali hjá Alcoa í heild. Endurbæturnar munu ennfremur auka árlega framleiðslugetu álveranna á sama tíma og draga mun úr losun gróðurhúsalofttegunda þeirra.
 
Samkomulagið felur ennfremur í sér orkusölusamning til næstu 25 ára fyrir álverin þrjú og gerir álverinu Baie-Comeau kleift að ráðast þegar í stað í framkvæmdir við síðasta áfanga endurbóta og nútímavæðingar verksmiðjunnar, sem m.a. felur í sér gangsetningu nýrrar kerlínu í lok árs 2015. Í Deschambault verður framleiðsla aukin í lok þessa árs þegar afhending á meiri orku hefst til verksmiðjunnar. Framleiðslugeta þess verður um 240 þúsund tonn árið 2016 eða um 25 þúsund tonnum meiri en nú.
 
Við endurbætur hjá álverinu í Baie-Comeau verður m.a. einni af kerlínum verksmiðjunnar skipt út fyrir nýjustu og fullkomnustu framleiðslutækni, sem þróuð hefur verið hjá Alcoa. Verður árleg framleiðslugeta nýju línunnar um 160 þúsund tonn að endurbótum loknum og losun gróðurhúsalofttegunda 40 prósent minni. Alls er framleiðslugeta álversins í Baie-Comeau um 400 þúsund tonn á ári.
 
„Stjórnvöld í Québecfylki gera sér ljósa grein fyrir þeim gagnkvæma ávinningi sem hin nýja fjárfestingaráætlun felur í sér. Hún gerir okkur kleift að skipuleggja reksturinn enn betur fram í tímann og líta björtum augum til framtíðar,“ sagði Pierre Morin, forstjóri Alcoa Canada Global Primary Products, þegar samningurinn var undirritaður. Hann sagði ástæðu til að fagna þessum áfanga, bæði f.h. samfélagsins og þeirra þúsunda fjölskyldna sem byggðu afkomu sína á rekstri álveranna í Québec.
 
Áætlunin mun hafa jákvæð efnahagsleg áhrif í Québec. Stofnaður verður þróunarsjóður á vegum yfirvalda og mun Alcoa leggja til rúmlega 5,8 milljarða króna stofnframlag í sjóðnn. Auk þess mun Alcoa stofna sjálfbæran þróunarsjóð með þriggja milljarða króna framlagi, sem verður tileinkaður sveitarfélögunum, þar sem álverin þrjú í Québec. Sá sjóður er sambærilegum þeim sem Alcoa stofnaði nýlega í Montreal.
 
Frekari upplýsingar um verkefnið eru hér.