Áfram

21. júní 2011
Alcoa Fjarðaál veitir Vinum Vatnajökuls 80 milljóna króna styrk

Vinir Vatnajökuls – hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs veittu í dag viðtöku 700 þúsund dollara styrk frá Alcoa Fjarðáli eða rúmlega 80 milljónum íslenskra króna. Athöfnin fór fram í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri.

Áður hafði Fjarðaál veitt samtökunum tvo styrki að upphæð um 145 milljónir króna, samtals eru því styrkir fyrirtækisins til Vina Vatnajökuls komnir yfir 200 milljónir króna á þremur árum. Fyrirtækið hyggst styrkja samtökin enn frekar á næstu árum. Fjármunirnir fara til margs konar verkefna sem tengjast kynningu, fræðslu og rannsóknum í og við Vatnajökulsþjóðgarð.
 
Eitt af styrktarverkefnum Vinanna er gerð og uppsetning á vörðum sem marka aðkomu að þjóðgarðinum. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhjúpaði fyrstu vörðuna í dag, við mörk garðsins á Fljótsdalsheiði og flutti stutt ávarp. Samskonar vörður verða settar upp víðar við mörk þjóðgarðsins. Að lokinni afhjúpun varðanna á heiðinni afhenti Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, Bjarna Daníelssyni varaformanni stjórnar Vina Vatnajökuls styrkinn í Snæfellsstofu, nýrri upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs.
 
Við afhendingu styrksins sagði Tómas Már að það væri ljóst að stórt alþjóðlegt fyrirtæki eins og Alcoa hefði mikil áhrif á íslenskt umhverfi og samfélag. Það væri stefna fyrirtækisins að vinna í anda sjálfbærni og frá upphafi hefði það verið alveg skýrt að Alcoa hefði áhuga á að styrkja uppbyggingu þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Sérstök viljayfirlýsing um það var undirrituð árið 2002, árið sem Alcoa hóf könnun á hagkvæmni þess að reisa álver á Reyðarfirði. Tómas sagði að það væri fyrirtækinu mikils virði að taka þátt í að efla Vatnajökulsþjóðgarð sem er stærsti þjóðgarður Evrópu og myndi um ókomin ár laða að sér ómældan fjölda innlendra sem erlendra ferðamanna.
 
Kristveig Sigurðardóttir formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, Paula Davis, framkvæmdastjóri Alcoa Foundation og Bjarni Daníelsson, varaformaður stjórnar Vina Vatnajökuls ávörpuðu samkomuna.
 
Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir rúmlega 13 þúsund ferkílómetra lands, allt frá suðurströnd Íslands norður í Öxarfjörð. Jökulsárgljúfur, Lakagígar og Skaftafell eru innan þjóðgarðsins ásamt mörgum öðrum náttúruperlum Íslands. Það voru fulltrúar allra byggðarlaga sem liggja að garðinum sem lögðu hönd á plóginn við stofnun Vina Vatnajökuls. Samtökin hafa það markmið að afla fjár til styrktar rannsókum, kynningar- og fræðslustarfi í þjóðgarðinum og næsta umhverfi hans, og til að stuðla að samspili nærsamfélagsins og þjóðgarðins.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ráðherra afhjúpar vörðu


Svanhvít Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, afhjúpar formlega aðra vörðuna við innganginn í þjóðgarðinn.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Vinir Vatnajökulsþjóðgarðs


Kristveig Sigurðardóttir formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, og Bjarni Daníelsson, varaformaður stjórnar Vina Vatnajökuls sýna á táknrænan hátt hversu annt þeim er um þjóðgarðinn.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Styrkurinn afhentur


Bjarni Daníelsson, varaformaður stjórnar Vina Vatnajökuls, tekur formlega á móti styrknum frá Tómasi Má Sigurðssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi.