Áfram

10. júní 2011
Alcoa Fjarðaál gerir kjarasamninga við AFL Starfsgreinafélag og Rafiðnarsamband Íslands

Undirritaður var í dag á Reyðarfirði kjarasamningur milli Alcoa Fjarðaáls annars vegar og AFLs Starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands (Rafís) hins vegar. Í aðalatriðum byggir samningurinn á sömu launabreytingum og þeir samningar sem nýlega voru gerðir milli aðila vinnumarkaðarins, en felur þó í sér ákveðnar nýjungar og breytingar frá fyrri samningi.

Þetta er í annað sinn sem þessir aðilar gera með sér kjarasamning, en samningurinn nú gildir frá 1. maí 2011 til 31. janúar 2014. Meðal breytinga frá fyrri samningi er að hann inniheldur nú launatöflu, þar sem tekið er tillit til starfsaldurs og hæfni starfsfólks, og einnig kveður  hann á um stofnun Stóriðjuskóla Fjarðaáls. Mun skólinn hefja starfsemi nk. haust með grunnnámi og síðan framhaldsnámi frá og með árinu 2012.
 
Samningurinn styrkir félagslega stöðu starfsmanna, en auk þess að innihalda forgangsréttarákæði er fjölgun á trúnaðarmönnum og réttur þeirra til náms styrktur.
 
Samningurinn fer nú í kynningu og atkvæðagreiðslu og ber að skila niðurstöðu úr henni 23. júní.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Samningar undirritaðir


Frá undirritun samninganna í dag. Við borðið sitja f.v. Ísleifur Tómasson, Rafís, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, AFLi Starfsgreinafélagi, Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi og Óskar Borg, framkvæmdastjóri innkaupa Alcoa Fjarðaáls.