Áfram

12. apríl 2011
Hagnaður hjá Alcoa

Hagnaður Alcoa, móðurfélags Fjarðaáls, á fyrsta ársfjórðungi 2011 nam um 34,7 milljörðum króna. Til samanburðar var um 29 milljarða króna hagnaður á rekstri fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi 2010. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra var hins vegar um 20 milljarða króna tap á rekstrinum.

Tekjur Alcoa á fyrsta ársfjórðungi 2011 námu um 672 milljörðum króna, og jukust um 5,4% frá síðasta ársfjórðungi 2010.  Helsta ástæðan fyrir batnandi afkomu fyrirtækisins er hækkun álverðs og aukin eftirspurn eftir áli.
 
„Fyrsti ársfjórðungur hefur verið framúrskarandi hjá Alcoa og arðsemi aukist á öllum sviðum fyrirtækisins. Þetta er frábær árangur sterkrar liðsheildar fyrirtækisins,” segir Klaus Kleinfeld, forstjóri Alcoa. 
 
„Framtíðarhorfur Alcoa halda áfram að vera mjög góðar. Við teljum að eftirspurn eftir áli muni aukast um 11% á þessu ári eftir 13% aukningu á síðasta ári,“ segir Kleinfeld ennfremur.