Áfram

19. maí 2008
Listrænt Ferðalag um Austurland

Um hundrað íslenskir og erlendir gestir gerðu sér Ferðalag um Austurland á laugardaginn til að upplifa samvinnuverkefni þriggja listastofnana á Austurlandi. Á dagskránni eru innsetningar, gjörningar, uppákomur, dans og tónlistarflutningur. Sænski myndlistarmaðurinn Lennart Alvés sýnir meðal annars rafmagnsmastur úr áli á túninu við Listasetrið á Eiðum og álverk og ljósmyndir af rafmagnsmöstrum á veggjum íþróttahússins.

Um hundrað íslenskir og erlendir gestir gerðu sér Ferðalag um Austurland á laugardaginn undir leiðsögn Björns Roth. Ferðalagið er samvinnuverkefni þriggja listastofnana á Austurlandi: Skaftfells á Seyðisfirði, Sláturhússins á Egilsstöðum og Listasetursins á Eiðum, og var unnið sérstaklega fyrir Listahátíð í Reykjavík 2008. Á dagskránni eru innsetningar, gjörningar, uppákomur, dans og tónlistarflutningur. Alcoa Fjarðaál er meðal styrktaraðila Ferðalagsins.
 
Í Skaftfelli í gamla bænum á Seyðisfirði eru meðal annars sýndar viðamiklar innsetningar Christof Büchels, verk eftir þríeykið Skyr Lee Bob og verkefni meðlima úr PONI fjöllistahópnum, en í honum eru myndlistarmaðurinn Guðni Gunnarsson, danshöfundurinn og dansarinn Erna Ómarsdóttir og tónlistarmaðurinn Lieven Dousselaere. Skaftfell kynnir einnig Painting by Numbers eftir seyðfirska listamanninn Pétur Kristjánsson, en hann notar í verkinu vinnuvélar í fullri stærð, svo sem gröfur, dráttarvélar og vörubíla. “Á Seyði 2008”, hin árlega listahátíð Seyðisfjarðar, var einnig sett á laugardaginn.
 
Í Listasetrinu á Eiðum eru sýnd verk myndlistarmannanna Hrafnkels Sigurðssonar og Lennart Alvés, sem báðir vinna með margs konar mismunandi tækni. Sýningar Hrafnkels Crew og Function Ground fengu Íslensku sjónlistaverðlaunin á síðasta ári.
Bæði Hrafnkell og Lennart Alvés hafa dvalið á Eiðum í aðdraganda sýninganna og vinna þar að verkum sínum. Alvés hefur reist á túninu við Eiða rafmagnsmastur úr áli og á veggjum íþróttahússins sýnir hann álverk og ljósmyndir af rafmagnsmöstrum sem teknar voru að næturlagi.
 
Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum sýna myndlistamaðurinn Paul Harfleet, en hann blandar  ævisögulegum rannsóknum saman við pólitískar hugmyndir um sálfræðilega landafræði til að skapa ögrandi athugasemdir um borgaralegt samfélag nútímans; Sara Björnsdóttir, sem vinnur verk sem eru í senn beinskeytt, kraftmikil, hávaðasöm og stríðin, en einnig hljóðlát, falleg og ljóðræn; og hljóðlistamaðurinn Matti Saarinen, sem kannar heima jafnt sígildrar sem tilraunakenndrar tónlistar.