Áfram

4. apríl 2008
Undirbúningur gengur vel fyrir álver á Bakka við Húsavík

Fullt var út úr dyrum á borgarafundi um álver á Bakka sem Norðurþing stóð fyrir á Fosshóteli, Húsavík, fimmtudaginn 3. apríl síðastliðinn. Hátt í 500 manns sóttu fundinn og hlýddu á erindi fyrirlesara frá Norðurþingi, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Landsneti, Landsvirkjun, HRV og Alcoa um undirbúning og stöðu mála varðandi álver á Bakka. Mikil og jákvæð stemmning var á fundinum og líflegar umræður spunnust að erindum loknum. Ljóst er að verkefnið nýtur mikils og almenns stuðnings á Húsavík og nágrenni.

Í máli Bergs Elíasar Ágústssonar, sveitarstjóra Norðurþings og Gauks Hjartarsonar; skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, kom fram að nýtt svæðisskipulag vegna fyrirhugaðrar nýtingar háhitasvæða í Þingeyjarsýslum er í höfn og hefur verið samþykkt af viðkomandi sveitarstjórnum og staðfest af umhverfisráðherra. Í skipulaginu er meðal annars fjallað um verndun og nýtingu háhitasvæða og háspennulínur á öllu skipulagssvæðinu. Á fundinum fór Gaukur fór yfir helstu þætti skipulagsins.
 
Tryggvi Finnsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, fór yfir stöðu mála og aðkomu Atvinnuþróunarfélagsins að undirbúningi fyrir álver á Bakka.
 
Árni Jón Elíasson hjá Landsneti sagði fyrirtækið hafa lagt fram tillögu að matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að Bakka. Auk þess sé í undirbúningi að styrkja núverandi meginflutningsnet raforku á Norðausturlandi með það fyrir augum að tengja nýjar virkjanir og álver á Bakka öruggri tengingu við landsnetið.
 
Árni Gunnarsson hjá Landsvirkjun fór yfir rannsóknir á háhitasvæðunum á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi, Kröflu og Gjástykki. Fram kom í máli hans að rannsóknarboranir lofi góðu og niðurstaðna úr þeim sé að vænta um næstu áramót. Mat á umhverfisáhrifum og aðalskipulag er tilbúið fyrir virkjun í Bjarnarflagi, tillaga að matsáætlun fyrir virkjun á Þeistareykjum er til umfjöllunar hjá Skipulagsstofnun og tillaga að matsáætlun fyrir stækkun Kröfluvirkjunar verður kynnt innan skamms.
 
Arnór Þórir Sigfússon frá HRV fór yfir athuganir sem HRV hefur unnið að fyrir Alcoa, og varða meðal annars náttúruvá, svo sem jarðskjálfta og hafís.  Einnig gerði hann grein fyrir undirbúningi vegna mats á umhverfisáhrifum.
 
Kristján Þ. Halldórsson, verkefnisstjóri samfélagsmála hjá Alcoa á Norðurlandi, kynnti stöðu mála fyrir hönd Alcoa. Einnig voru komnir hingað til lands vegna fundarins þeir Louis- Régis Tremblay; aðstoðarframkvæmdastjóri nýverkefna í álframleiðslu hjá Alcoa og leiðtogi Norðurlandsteymis fyrirtækisins, Patrick Grover; forstöðumaður öryggis- og umhverfismála nýverkefna í álframleiðslu hjá Alcoa og Wade Hughes, forstöðumaður samfélagstengsla vegna nýverkefna í álframleiðslu. Í máli þeirra kom fram að Alcoa muni á næstu vikum leggja fram tillögu að matsáætlun fyrir 250.000 tonna álver á Bakka og hefja rannsóknir á umhverfisáhrifum. Einnig verður hleypt af stokkunum sjálfbærniverkefni í samvinnu við Landsvirkjun og Landsnet. Þar verður meðal annars horft til fenginnar reynslu af slíku verkefni sem unnið hefur verið að í tengslum við framkvæmdirnar á Austurlandi.
 
Alcoa vinnur samkvæmt áætlunum um að nýtt álver á Bakka nái fullum afköstum árið 2015. Lokaákvörðun um hvort fyrirtækið ræðst í byggingu álversins mun meðal annars ráðast af niðurstöðum rannsókna á virkjanlegri orku á svæðinu, orkuverði, niðurstöðum mats á umhverfisáhrifum, hagkvæmniathugunum, tímaáætlunum og markaðsaðstæðum. Hversu mikil virkjanleg gufuorka er á svæðinu og orkuverð mun hafa úrslitaþýðingu varðandi byggingu og stærð álversins, en áhugi er á að kanna kosti þess að nýta reynsluna frá Reyðarfirði til fullnustu með því að byggja álver af sömu stærð og Fjarðaál.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ljósm.: Ari Páll/ATTHING


Fjölmennur fundur


Á fimmta hundrað manns sóttu fundinn á Húsavík og hér má sjá hluta gesta, m.a. nokkra alþingismenn kjördæmisins.