Áfram

30. apríl 2008
Alcoa Fjarðaál úthlutaði 14 samfélagsstyrkjum í byrjun apríl

Alcoa Fjarðaál úthlutaði 14 samfélagsstyrkjum til fjölbreyttra verkefna á Austurlandi í byrjun apríl. Landsmót kvennakóra sem fór fram á Höfn í Hornafirði um síðustu helgi var meðal þeirra verkefna sem fengu styrk.
 

Aðrir sem hlutu styrki voru Sögubrot, félag áhugamanna um sagnamenningu, en félagið stendur fyrir því að endurvekja íslenska sagnahefð með því að segja grunnskólabörnum á Austurlandi sögur. Þá var veittur styrkur til gerðar handrits fyrir heimildamynd um hreindýr á Austurlandi, kammerkór Austurland fékk styrk og Daufblindrafélag Íslands. Björgunarsveitin Gerpir fékk styrk til unglingastarfs, en ætlunin er að halda námskeið fyrir björgunarsveitarmenn framtíðarinnar á Austurlandi og einnig fékk sveitin styrk vegna hundateymis sem hún hefur þjálfað meðal annars í snjóflóðaleit. Mjóeyri á Eskifirði fékk styrk til að vera með menningartengdar skoðunar- og gönguferðir í Fjarðabyggð í júní og Ísjakarnir frá Grunnskóla Hornafjarðar sem er sigurlið Legókeppninnar 2007 fékk styrk til keppni í Bandaríkjunum í sumar.
 
Styrkjum var einnig úthlutað til Listabúða norrænna ungmenna sem verða haldnar á Eiðum í sumar, æskulýðsdeildar Hestamannafélagsins Blæs, Skógardagsins mikla, Félags eldri borgara á Eskifirði, Umgmennafélagsins Leiknis til að halda Fjarðaálsmót í knattspyrnu sem fóru fram fyrr í þessum mánuði og til Eistnaflugs sem er þungarokkshátíð í Fjarðabyggð.
 
Fjarðaál styrkir auk þessa flestar bæjarhátíðir á Austurlandi, þar á meðal Hammond hátíðina sem haldin verður á Djúpavogi í byrjun maí. Fyrirtækið styrkir einnig vídeólistahátíðina Hreindýraland 700IS og Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi. Þar að auki hefur Fjarðaál gert samning um að styðja Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar.
 
Samfélagsstyrkjum Alcoa Fjarðaáls er úthlutað tvisvar á ári og er umsóknarfrestur um styrki til 10. mars og 10. september ár hvert. Sótt er um á síðu um samfélagsstyrki
 
Einnig er mögulegt að sækja um styrki í samfélagssjóð Alcoa (Alcoa Foundation) en til þess þarf að hafa samband við Alcoa Fjarðaál.