Áfram

28. desember 2007
Upplýsingamiðstöð Fjarðaáls verður skíðaskáli

Húsið, sem undanfarin tvö ár hefur hýst upplýsingamiðstöð Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar í Reyðarfirði, hefur fengið nýtt hlutverk og verður í framtíðinni skíðaskáli í Stafdal, sameiginlegu skíðasvæði Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs.

Um er að ræða tæplega 110 fermetra hús sem Fjarðaál hefur ákveðið að gefa til skíðasvæðisins og leggja þar með grunn að frekari uppbyggingu þess. Stefnt er að því að húsið verði komið upp í Stafdal fyrir áramót. Húsið er fullbúið og eldhústæki fylgja með.
 
Tómas Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir að húsið hafi hentað vel sem upplýsingamiðstöð og síðustu tvö sumur hafa nokkur þúsund manns heimsótt það. ,,Eftir að byggingu álversins lauk er ekki er lengur þörf fyrir upplýsingamiðstöðina. Við erum mjög ánægð með að geta með þessari gjöf stuðlað að uppbyggingu skíðasvæðisins í Stafdal.”
 
Þegar er búið að steypa undirstöður undir húsið og verður það flutt í fjórum hlutum á nýja staðinn og verður uppsetningu þess lokið fyrir áramót. Ólafur Sigurðsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði, segir gjöfina frá Alcoa Fjarðaáli algera forsendu fyrir áframhaldandi uppbyggingu skíðasvæðisins . „Við höfðum uppi áform um byggingu nýs skíðaskála en kostnaðurinn við það var of mikill fyrir okkur. Þessi gjöf kom því á réttum tíma og er sannkölluð jólagjöf til íbúa svæðisins.”
 
Húsið hentar vel sem skíðaskáli að sögn Ólafs. Engar breytingar þarf að gera á því, en lítið anddyri verður byggt við húsið sem verður komið í fulla notkun strax í byrjun janúar.