Áfram

9. júní 2007
Mikill fjöldi gesta á opnunarhátíð Alcoa Fjarðaáls

Mikil hátíð stendur nú yfir á Reyðarfirði í tilefni opnunar nýs álvers Alcoa Fjarðaáls.  Nokkur þúsund manns, heimamenn og gestir, starfsmenn og forsvarsmenn Alcoa Fjarðaáls og Alcoa Corp., njóta veðurblíðunnar og fjölbreyttrar dagskrár sem stendur langt fram á kvöld.

Hátíðahöldin hófust með formlegri opnunarathöfn í Fjarðabyggðarhöllinni. Alain Belda stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, Geir H. Haarde forsætisráðherra, Tómas Már Sigurðsson framkvæmdastjóri Alcoa Fjarðaáls, Helga Jónsdóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Reily Bechtel stjórnarformaður Bechtel fluttu ávörp. Að opnunarathöfninni lokinni voru gróðursett stór og myndarleg tré á álverslóðinni. 
 
„Við sem hér búum höfum séð með eigin augum hvernig allt mannlíf  hefur þróast á fáeinum árum úr efnahagslegri stöðnun í blómlegan og kraftmikinn uppvöxt og framfarir sem Austfirðingar munu njóta góðs af um langan aldur,” sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls meðal annars í ræðu sinni.
 
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var meðal ræðumanna á opnunarhátíðinni.  „Þetta fyrirtæki á eftir að verða gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulíf á Austurlandi og mikilvæg viðbót við íslenskan þjóðarbúskap sem á eftir að skila drjúgum arði og bættum lífskjörum allra landsmanna,” sagði forsætisráðherra.
 
„Samfélagið tók vel á móti Alcoa og fyrirtækið hefur gegnt skyldum sínum af miklum myndarskap,” sagði Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð við opnunina.  „Þessi gríðarlega uppbygging á svæðinu á liðnum misserum hefur í alla staði verið áfallalaus, hvort sem um er að ræða atvinnuöryggismál eða umhverfismál og öll samskipti og uppbygging samfélagsins eru til fyrirmyndar.”
 
Reyðarfjarðarbær verður í hátíðarskapi í dag og meðal skemmtiatriða víðs vegar um bæinn má nefna Nylon, Sú Ellen, Halla Reynis, Karíus og Baktus, Álbandið, Kalla á þakinu, Þorstein Helga og fleiri. Leiktæki eru á staðnum, boðið er upp á skipulagðar skoðunarferðir um álverið og götuleikhús og töframenn eru á stjái.  Boðið er upp á 100 fermetra tertu og pylsur.
 
Stórtónleikar hefjast í Fjarðabyggðarhöllinni kl. 19. Þar koma fram með stórhljómsveit þau Eivör Pálsdóttir, Birgitta Haukdal, Felix Bergsson, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Helgi Björnsson og Björgvin Halldórsson. Tónlistarmenn frá Austurlandi munu einnig flytja nokkur lög úr The Queen Show.
 
Hátíðahöldunum lýkur með fallhlífarstökki og listflugssýningu um kl. 22.
 

Mr. Alain Belda

Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ávarp á opnunarhátíð


Alain Belda stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, í ræðustól á opnunarhátíð Alcoa Fjarðaáls.