Áfram

10. júní 2007
Fjör á opnun Alcoa Fjarðaáls í veðurblíðu á Reyðarfirði

Veðrið lék við íbúa Austurlands og aðra gesti opnunarhátíðar Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði laugardaginn 9. júní. Hátíðin tókst með afbrigðum vel og var það mál manna að álver hafi varla verið opnað áður á glæsilegri hátt. Yfir tvö þúsund manns komu saman á Reyðarfirði til að sýna sig og sjá aðra og njóta fjölbreyttrar dagskrár sem var í boði frá morgni og fram á kvöld.

Fjöldi fólks var á opnunarathöfn í Fjarðabyggðarhöllinni um morguninn: íbúar fjórðungsins, þingmenn, ráðherrar, forsvarsmenn fyrirtækja sem komið hafa að byggingu álversins og aðrir gestir. Í máli forsvarsmanna Alcoa og verktakafyrirtækisins Bechtel sem sá um byggingu álversins, kom fram að þeir líti til álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði sem fyrirmyndar um hvernig haga beri slíkum stórframkvæmdum. Alcoa hyggst ennfremur nota það sem skólabókardæmi hvað varðar hönnun, tækni, umhverfismál, starfsmannamál og góð og öflug samskipti við íbúa og fyrirtæki á svæðinu fyrir álver fyrirtækisins í framtíðinni.
 
Að opnunarathöfninni lokinni aðstoðuðu grunnskólabörn frá Fjarðabyggð við gróðursetningu trjáa á álverslóðinni sem tákn um samstarf Alcoa við íbúa svæðisins.
 
Loks tók við sannkölluð karnivalstemmning um allan bæ með fjölbreyttum skemmtiatriðum fyrir unga og aldna. Boðið var upp á tónleika, leiktæki, götuleikhús, leikatriði, töframenn, pylsur og tertu og áfram mætti lengi telja. Um kvöldið var boðið til stórtónleika þar sem fram kom landslið íslenskra poppsöngvara við undirleik sannkallaðrar stórhljómsveitar. Austfirskir tónlistarmenn slógu botninn í tónleikana með stuði og rokki að hætti Queen.
 
Formlegum hátíðarhöldum lauk með því að trommuleikarar leiddu tónleikagesti úr Fjarðabyggðarhöllinni til að fylgjast með ævintýralegu listflugi og fallhlífarstökki í dagskrárlok.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Gróðursetning við álverið


Myndin sýnir Valgerði Sverrisdóttur, þingmann Norðausturkjördæmis, og Tómas Má Sigurðsson, forstjóra Alcoa, gróðursetja tré í hlíðinni ofan við álverið.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Karnivalstemmning á opnunarhátíð


Börn og fullorðnir nutu veðurblíðunnar og skemmtu sér vel á laugardaginn.