Áfram

24. nóvember 2006
Alcoa opnar upplýsingamiðstöð á Húsavík

Alcoa hefur opnað skrifstofu og upplýsingamiðstöð á Húsavík, vegna hagkvæmniathugunar sem nú er í vinnslu vegna hugsanlegs álvers  í landi Bakka við Húsavík.  Aðstaða Alcoa er tekin í notkun nú þegar rannsóknir hafa leitt í ljós að engar tæknilegar hindranir standa í vegi fyrir því að álver rísi við Bakka. Þetta var niðurstaða  fyrsta áfanga vinnunnar sem fram fer á svæðinu.

Kristján Þ. Halldórsson rekstrarverkfræðingur er verkefnisstjóri samfélagsmála fyrir Alcoa á Norðurlandi og hann veitir skrifstofunni og upplýsingamiðstöðinni forstöðu. Kristján er fyrsti starfsmaður Alcoa á svæðinu og hann starfar að undirbúningsvinnu vegna hugsanlegs álvers.
 
Starf Kristjáns og starfsemi upplýsingamiðstöðvarinnar felst í því að miðla upplýsingum um Alcoa og hugsanlegt álver á Húsavík til hagsmunaaðila á Norðausturlandi svo sem sveitarfélaga, samtaka atvinnulífsins og íbúa. Kristján mun einnig  miðla upplýsingum til Alcoa um það sem helst er í deiglunni á svæðinu og snertir verkefnið á einhvern hátt. „Málefni samfélagsins, umhverfismál og fleira skipta stjórnendur Alcoa miklu máli, enda hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að styðja við samfélögin þar sem Alcoa er með starfsemi, eins og dæmin sanna á Austurlandi,” segir Kristján.
 
Skrifstofan og upplýsingamiðstöð Alcoa er til húsa að Garðarsbraut 5, Húsavík. Síminn er 470-7769 en GSM hjá Kristjáni er 845-4090.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Garðarsbraut 5


Skrifstofan er á annarri hæð í þessu húsi að Garðarsbraut 5 í Húsavík.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Frá opnuninni


Margir góðir gestir voru viðstaddir opnun skrifstofunnar á Húsavík enda voru allir velkomnir. Á myndinni sjást t.f.v. Ólöf Nordal, eiginkona Tómasar Más Sigurðssonar, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, Patrick Grover, umhverfisfulltrúi Alcoa, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri og Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.