Áfram

24. nóvember 2006
Hagkvæmniathugun vegna álvers á Bakka lofar góðu

Niðurstöður fyrsta áfanga hagkvæmniathugunar vegna hugsanlegrar byggingar álvers á Bakka við Húsavík liggja nú fyrir og hafa verið kynntar heimamönnum nyrðra.  Um 80 manns sóttu kynningarfund sem haldinn var á Akureyri en á Húsavík komu um 200 manns til að kynna sér niðurstöðurnar.

Engar virkar sprungur eru á fyrirhugaðri byggingarlóð álvers Alcoa á Bakka við Húsavík. Litlar sem engar líkur eru taldar á eldgosum sem ógna geta álverinu og hverfandi líkur eru á því að fleiri en eitt af hugsanlegum orkuverum álversins séu samtímis í hættu verði eldgos í grennd við virkjunarsvæðin. Hugsanlegt álver mun hafa óveruleg áhrif á dýralíf í grennd við álverið, samkvæmt fyrstu rannsóknum á svæðinu og engar tækniegar hindranir standa í vegi fyrir því að álver geti risið á Bakka

Þetta var meðal þeirra upplýsinga sem komu fram á fjölsóttum kynningarfundum sem Alcoa, Norðurþing og atvinnuþróunarfélög Eyjafjarðar og Þingeyinga héldu á Akureyri og Húsavík, þriðjudaginn 21. nóvember. Tilgangur fundanna var að kynna niðurstöður fyrsta áfanga hagkvæmniathugunarinnar sem hófst í  kjölfar undirritunar viljayfirlýsingar ríkistjórnarinnar, Alcoa og Húsavíkurbæjar og ríkisins síðast liðið vor um að kanna nánar hagkvæmi þess að reisa 250 þúsund tonna álver á Bakka við Húsavík. Rannsóknarvinnunni var skipt niður í þrjá áfanga.

Gert er ráð fyrir því að hugsanlegt álver verði knúið raforku frá háhitasvæðunum í nágrenni Húsavíkur. Rannsóknir á svæðunum lofa góðu og meðal annars hefur komið í ljós að háhitasvæðið við Þeistareyki er tvöfalt stærra en áður var talið, eða um 45 ferkílómetrar að stærð. Botnhiti í nýrri rannsóknarholu á Þeistareykjum er 360 gráður sem er næst mesti hiti sem mælst hefur í íslenskri borholu. Hola sem boruð var vegna verkefnisins í Bjarnarflagi í Mývatnssveit reyndist mjög öflug og rafmagnsframleiðslugeta hennar er 12MW en meðal orkugeta íslenskra borhola er um 5 MW.

Ljóst er að jörðin Bakki er á þekktu jarðskjálftasvæði og ef álver verður reist þarf að taka tillit til þess við hönnun og byggingu verksmiðjunnar. Það mun hafa í för með sér hærri byggingarkostnað en ella. Þetta var reyndar ljóst þegar ákveðið var að kanna nánar hagkvæmi álvers á Bakka.

Fjölmargar fyrirspurnir komu fram á fundunum, meðal annars um stærð álversins og hvort það yrði stækkað þegar fram liðu stundir.  Fulltrúar Alcoa svöruðu því til að stærð álversins færi eftir þeirri orku sem væri fáanleg.  Núna væri miðað við 250 tonna álver sem yrði knúið gufuafli  frá jarðvarmasvæðum Þingeyinga.  Ef meiri orka fengist síðar, þyrfti Alcoa að spyrja sig hvort fyrirtækið vildi stækka álverið og það færi eftir vilja heimamanna og stjórnvalda hvort það yrði gert. 
Alcoa fagnar jákvæðum niðurstöðum fyrsta hluta rannsóknarvinnunnar og þegar er hafinn vinna við annan áfanga. Þær niðurstöður verða kynntar í apríl á næsta ári.
 

Meeting in Húsavík

Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Fjölsóttir fundir


Fundargestir á Húsavík voru um 200 og fylltu salinn á Fosshóteli. Hér sjást nokkrir gestanna.

Meeting in Akureyri

Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Á Akureyri


Húsfyllir var einnig á Akureyri þar sem þessi mynd var tekin.

Tómas Már Sigurðsson

Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Sjónvarpsviðtal


Hér sést Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa, í viðtali við fréttamann NFS á Akureyri.