Áfram

24. október 2006
Margir lögðu hönd á plóg

Góð þátttaka var í samfélagsátaki Alcoa Fjarðaáls á laugardaginn undir yfirskriftinni „Leggjum hönd á plóg.“ Að sögn Ernu Indriðadóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, heppnuðust verkefni dagsins með miklum ágætum.

Ríflega 30 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls, makar og börn tóku þátt í sjálfboðavinnu á laugardag. M.a. var reist 26 metra löng girðing á lóð leikskólans Dalborgar á Eskifirði auk þess sem unnið varð við strandhreinsun í friðlandinu frá Eskifjarðarbrú yfir Hólmahálsinn. Fleiri verkefni verða innt af hendi næstkomandi laugardag.

Góð stemning ríkti á meðal sjálfboðaliðanna og naut fólk náttúrunnar í blíðunni þótt kalt væri. Girðingarvinnan gekk fljótt og vel fyrir sig og pizzurnar sem boðið var upp á í kjölfarið runnu ljúflega niður í svanga maga.

Um fimmtíu manns sóttu síðan fund sem Alcoa Fjarðaál efndi til fyrir félagasamtök á Mið-Austurlandi til þess að kynna stefnu sína í styrkveitingum og samfélagsvinnu. Á fundinum voru m.a. kynntir til sögunnar svokallaðir Action og Bravo-styrkir sem Alcoa stendur að. Fundurinn var að sögn Ernu bráðskemmtilegur og fróðlegur. „Margar góðar hugmyndir kviknuðu á fundinum,” sagði Erna og var ánægð með afrakstur hans.

Þessi verkefni Alcoa Fjarðaáls eru hluti af samfélagsátaki Alcoa Corp. í október um heim allan. Talið er að um 25.000 manns á 200 starfsstöðvum fyrirtækisins um víða veröld leggi átakinu lið í margvíslegum verkefnum. Markmiðið með þessu skipulagða átaki er að kynna sjálfboðastörf sem hluta af þeim gildum sem Alcoa stendur fyrir og efla skilning starfsmanna á mikilvægi þeirra.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Girðingin reist


Hér sjást starfsmenn Alcoa Fjarðaáls reisa girðingu við leikskólann á Eskifirði.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Þrír kappar í leit að rusli


Þessir duglegu kappar fundu olíubrúsa og annað rusl á svæðinu. Vinstra megin er Víkingur, sonur Janne Sigurðsson, ásamt hundinum þeirra, Týru, en við hlið hans er Birkir Einar, sonur Guðnýjar Hauksdóttur. Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Tekið til á Hólmahálsi


Þeir sem hreinsuðu svæðið við Hólmaháls fundu alls konar rusl á svæðinu. Hér sjást Elín Jónsdóttir og Hilmar Sigurbjörnsson klyfjuð rusli.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hópmynd


Hér sést allur hópurinn, börn og fullorðnir, sem lögðu öll hönd á plóginn í þágu samfélagsins í Fjarðabyggð á laugardaginn.