Áfram

Samkomulag um staðarvalsrannsóknir

Fulltrúar Fjárfestingarstofu, Alcoa, sveitarfélaganna Skagafjarðar, Húsavíkurbæjar og Akureyrarkaupstaðar ásamt fulltrúum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga undirrituðu í gær samkomulag um áætlun um staðarvalsathuganir vegna hugsanlegs álvers á Norðurlandi.

Samkomulagið felur það í sér að aðilar þess vinna saman að nauðsynlegum rannsóknum með það markmið að þann 1. mars 2006 liggi fyrir nauðsynlegar upplýsingar varðandi ákvarðanatöku um hvort og þá hvar skuli unnið frekar að undirbúningi að byggingu álvers. Einnig á að kanna hvort grundvöllur sé fyrir frekari úrvinnslu áls á svæðinu.
 
Á grundvelli samkomulagsins verður unnið að staðarvalsrannsóknum við Húsavík, í Eyjafirði og í Skagafirði. Í þeim felst m.a. að lagt verði mat á loftdreifingu, jarðskjálfta, hafnaraðstæður og umhverfisaðstæður. Jafnframt verður unnið að athugunum á hagkvæmni þess að reisa álver á Norðurlandi, lagt mat á hugsanlega orkuafhendingu á svæðunum, orkuflutninga og samfélagsleg áhrif álvers á viðkomandi stöðum.
 
Sérstök verkefnastjórn mun vinna að framgangi verkefnisins.


Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar


Á síðu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar segir um félagið: „Öll verkefni félagsins skulu miða að því að bæta samkeppnishæfni, búsetuskilyrði, og aðdráttarafl Eyjafjarðarsvæðisins. Þessum markmiðum hyggst félagið ná m.a. með frumkvæði og þátttöku í verkefnum sem eru mikilvæg fyrir framþróun svæðisins.
fara á síðu AFE


Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga


Markmið Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga eru m.a. þessi: „AÞ veitir einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum á starfssvæðinu fjölþætta þjónustu á sviði viðskiptaráðgjafar.“
fara á síðu AÞ