Endurvinnsla, flokkun og förgun úrgangs

 

Endurvinnsla er í hávegum höfð hjá Alcoa Fjarðaáli og litið er á sorp sem auðlindir á villigötum. Skýrt dæmi um það er öflugur þurrhreinsibúnaður sem hreinsar meira en 99,5% flúorefna úr útblæstri álversins, sem síðan er endurnýttur við álframleiðsluna.

 

Leifar rafskauta sem gengt hafa hlutverki sínu við rafgreiningu áls eru send til Noregs þar sem þau eru endurnýtt við framleiðslu nýrra skauta.

 

Kerbrot, álgjall og ýmsar aðrar aukaafurðir sem falla til við framleiðsluna eru sendar til Bretlands til endurvinnslu. Þar eru kerbrotin notuð við framleiðslu á sementi. Ekkert frárennsli er frá framleiðsluferlum álversins í sjó og stefnt er að því að enginn úrgangur fari til urðunar. Allt sorp sem fellur til er flokkað og lífrænn úrgangur er notaður í moltugerð, svo dæmi séu tekin.

 

Átak í endurvinnslu áldósa
Endurvinnsla hefur áratugum saman verið eitt þeirra umhverfismála sem Alcoa leggur áherslu á. Nú hefur fyrirtækið ýtt úr vör átaki sem ætlað er að auka endurvinnsluhlutfall áldósa í Bandaríkjunum úr 52% í 75% fyrir árið 2015. Ef takmarkið næst þýðir það að um 600.000 tonn af áldósum sem nú fara í landfyllingar á ári hverju munu skila sér til endurvinnslu.

 

Í þessu skyni reynir fyrirtækið að auka meðvitund neytenda um kosti þess að endurvinna ál og um leið eru skil á dósum gerð auðveldari. Leitað er eftir samvinnu við önnur álfyrirtæki til að vinna málinu brautargengi.

 

Ástæðan er einföld. Áldósir er hægt að endurvinna algerlega. Úr hverri dós sem skilað er verður til önnur dós. Ekkert fer til spillis. Við endurvinnslu áls sparast mikil orka. Aðeins þarf 5% þeirrar orku sem notuð er við framleiðslu áls til að endurvinna það.

 


Vefsíða um endurvinnslu áldósa 

Alcoa hefur ýtt úr vör átaki sem ætlað er að auka endurvinnsluhlutfall áldósa í Bandaríkjunum úr 52% í 75% fyrir árið 2015. Hluti af þessu átaki var að opna sérstaka vefsíðu um endurvinnslu áldósa.

skoða síðu (á ensku)