Hluti af heild

 

Alcoa hefur á undanförnum árum unnið markvisst að því að laga starfsemi sína að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem stefnt er að því að ná jafnvægi milli umhverfis, efnahags og samfélagslegra þátta til lengri tíma litið. Alcoa Fjarðaál leggur þess vegna megináherslu á að vera virkur þátttakandi í að byggja upp sjálfbært samfélag á Austurlandi til lengri tíma litið.

 

Liður í þessari viðleitni er sú stefna Alcoa Fjarðaáls að einbeita sér að álframleiðslu, en bjóða ýmsa stoðþjónustu út til annarra fyrirtækja og gera þeim þannig kleift að byggja upp starfsemi á Austurlandi.

 

Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar, sem ráðist var í í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls, hefur vakið athygli víða um heim. Efnt var til víðtæks samráðs með hagsmunaaðilum til að ákveða hvaða þætti í umhverfi, efnahagslífi og samfélagi bæri að vakta til að fylgjast með áhrifum uppbyggingarinnar, jákvæðum sem neikvæðum.

 

Fjarðaál og samfélagssjóður Alcoa hafa stutt fjárhagslega ýmis mikilvæg málefni á Austurlandi. Sem dæmi um verkefni, sem styrkt hafa verið, má nefna Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði, endurgerð Sómastaða, Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi, íþrótta- og tómstundastarf ungmenna og margt fleira. Fjarðaál hvetur einnig starfsmenn sína til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi til hagsbóta fyrir samfélagið og styrkir verkefni þeirra í slíku starfi.

 

Stefna Alcoa Fjarðaáls í útboði á þjónustu

Hlutverk álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði er að framleiða ál á hagkvæman, öruggan og umhverfisvænan hátt.

 

Stefna Fjarðaáls er að einbeita sér að þessari kjarnastarfsemi og láta öðrum fyrirtækjum eftir ýmsa stoðþjónustu sem tengist rekstrinum. Þannig hyggst fyrirtækið nýta þekkingu, reynslu og verkkunnáttu sem önnur fyrirtæki búa yfir, jafnt á svæðinu sem á landinu öllu. Áhersla er lögð á að eiga viðskipti við þjónustuaðila sem hafa aðsetur í grennd við álverið, svo fremi þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru vegna viðkomandi verks og teljist samkeppnishæfir í verði. Þannig er stefnan að stuðla að uppbyggingu fyrirtækja á Austurlandi, svo og vexti og viðgangi svæðisins í heild, og skapa um leið jákvæða samkeppni um vinnuafl á svæðinu.

 

Sem dæmi um samstarfsaðila Fjarðaáls má nefna að Eimskip sér um alla hafnarþjónustu í Mjóeyrarhöfn, fyrirtækið Lostæti frá Akureyri rekur veitingaaðstöðu starfsmanna og austfirska fyrirtækið Launafl sér um viðhald á tækjabúnaði.

 

Háskólinn á Akureyri: Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi (október 2007).

 

Til þess að skoða skjöl í PDF-formi þarf Adobe Acrobat Reader, sem er hægt að sækja endurgjaldslaust á síðu Adobe.

 


 

Upplýsingamiðstöð verður að skíðaskála

Dæmi um samfélagslega ábyrgð Alcoa Fjarðaáls eru fjölmörg - en eitt af þeim er þetta: Húsið, sem árin 2006-7 hýsti upplýsingamiðstöð Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar í Reyðarfirði, fékk nýtt hlutverk og varð að skíðaskála í Stafdal, sameiginlegu skíðasvæði Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Um er að ræða tæplega 110 fermetra hús sem Fjarðaál ákvað að gefa til skíðasvæðisins og leggja þar með grunn að frekari uppbyggingu þess. Hér fyrir ofan má sjá húsið í nýja hlutverkinu en myndin fyrir neðan sýnir það í fyrra hlutverkinu, í fjallshlíðinni ofan við álverið.

skoða frétt