Mat á umhverfisáhrifum

 

Skipulagsstofnun féllst á það í áliti sínu sem birt var haustið 2006 að tillögur Alcoa Fjarðaáls um hreinsun útblásturs frá álverinu á Reyðarfirði væru fullnægjandi. Hægt er að skoða álit stofnunarinnar í heild á www.skipulag.is - en tengil á matsskýrslu Alcoa Fjarðaáls má sjá í dálkinum hér til hægri.

 

Frummatsskýrsla
Þann 7. apríl 2006 hafði Alcoa Fjarðaál skilað svokallaðri frummatsskýrslu til Skipulagsstofnunar. Í skýrslunni er  m.a. að finna niðurstöður umfangsmikilla rannsókna á loftdreifingu og umhverfisáhrifum frá álverinu á Reyðarfirði. Hægt er að skoða skýrsluna og prenta hana út ásamt viðaukum og fleira efni (sjá hér til hliðar og neðst á síðunni).

 

Efni úr fréttatilkynningu dags 26. apríl 2006 

Niðurstöður þessara rannsókna sýna að áhrif útblásturs frá álverinu eru innan allra viðmiðunarmarka og staðla sem miðað er við, hvort sem þurrhreinsun er notuð eingöngu eða bæði þurr- og vothreinsun. Hvorki loftmengun né mengun í sjó fer yfir þau mörk sem miðað er við, sama hvor leiðin er valin við að hreinsa útblásturinn. Með rökstuðningi er sýnt fram á að áhrif útblásturs frá álveri fyrirtækisins á Reyðarfirði séu hverfandi á heilsu fólks og dýralíf.

 

Alcoa Fjarðaál leggur til að eingöngu verði notuð þurrhreinsun til að hreinsa útblástur frá álverinu. Ítarlegur samanburður á þeirri aðferð og hinni, þar sem notuð er vothreinsun til viðbótar, sýnir að styrkur efna í andrúmslofti er í flestum tilvikum hærri sé vothreinsun notuð. Eina undantekningin er skammtímagildi brennisteinsdíoxíðs (SO2). Styrkur efnanna er innan allra viðmiðunarmarka hvor hreinsunaraðferðin sem notuð er.

 

Auk nákvæmra útreikninga á loftdreifingu frá álverinu lét Alcoa Fjarðaál bandaríska fyrirtækið Exponent gera fyrir sig svokallaða vistfræðilega áhættugreiningu. Í henni er mat lagt á áhrif vegna útblásturs á heilsu manna, dýralíf og viðkvæman gróður. Þetta er í fyrsta sinn sem slík greining er gerð hérlendis í tengslum við mat á umhverfisáhrifum.