Verðmætaraukning frá upphafi

Allt hefst á leðju
Leðjan sem um ræðir er í raun málmgrýti sem nefnist báxíð. Ef þú sæir bílhlass með um 4 tonn af báxíði og einhver myndi spyrja: "Hvað getur þú gert við þetta?" eru allar líkur á að þú myndir svara: "Ekki mikið. Kannski ég geti notað þetta sem jarðlag í innkeyrsluna mína."

Hvítt púður, hvítur málmur
Úr helmingnum af þessu bílhlassi, 2 tonnum, væri hægt að vinna súrál sem er púðurkennd hvít oxíð áls. Það er þó ekki auðvelt. Tæknin er vægast sagt flókin og tækjabúnaðurinn mikill. Þetta er ferli sem Alcoa hefur náð miklum framförum í. Úr 2 tonnum af súráli getur Alcoa brætt 1 tonn af áli. Það var þessi kunnátta sem kom Alcoa af stað árið 1888.

Kraftaverk í hverju tonni
Eitt tonn af áli er nægjanlegt til þess að framleiða 60.000 Coca-Cola, Pepsi eða Egils Gull dósir. Það er einnig nægjanlegt til þess að framleiða burðargrindur á sjö bílum og myndi nægja í 40.000 minnisdiska í tölvur sem er nægjanlegt til að vista allar þær bækur sem nokkurn tíma hafa verið gefnar út. Allt þetta úr einu bílhlassi af leðju. Það er göldrum líkast og við erum sannanlega stolt af því að hafa hjá okkur fólk sem getur framkallað þessa galdra.

Skref fyrir skref
Að sjálfsögðu framleiðir Alcoa ekki einungis ál. Meira en 3 milljarðar dollara af veltu okkar á ári koma frá vörum sem ekki eru unnar úr áli. Okkur langar að kynna fyrir þér hvernig álið sem við framleiðum breytist úr því að vera nánast verðlaus mold yfir í að verða háþróuð vara sem hefur gríðarlegt notagildi fyrir okkur öll.

Námugröftur
Báxíð er málmgrýti sem er ríkt af áloxíðum og hefur tekið milljónir ára að myndast. Báxíð var fyrst grafið upp með skipulögðum hætti í Frakklandi, en finnst nú á fjölda staða um allan heim. Í dag er mest um námugröft á báxíði í Karíbahafinu, Ástralíu og Afríku.

Hreinsun
Til þess að breyta báxíði í súrál þurfum við að mala það niður í bland við kalk og vítissóda. Þeirri blöndu er síðan dælt inn í ofna sem eru undir miklum þrýstingi og hún hituð. Áloxíðin, sem við erum að reyna að ná úr þessari blöndu, eru leyst upp úr vítissódanum og falla svo úr blöndunni. Þá eru áloxíðin hreinsuð og hituð til þess að ná úr þeim vatninu. Það sem eftir stendur er hvítt, púðurkennt efni sem við köllum súrál eða áloxíð (AI203).

Bræðslan
Súrál verður að áli við rafgreiningarferli sem nefnist álbræðsla í daglegu tali. Við leysum upp súrálið með flúoríðum í stórum kerum. Þegar sterkum rafstraumi er hleypt á kerin skilur álið sig frá súrálinu og því er hleypt úr kerinu.

Framleiðslan
Álinu er veitt úr kerinu í sérstaka ofna svo hægt sé að blanda því nákvæmlega við aðra málma. Málmurinn er hreinsaður í ferli sem nefnist mýking og síðan hellt í mót eða steyptur beint í málmstangir. Frekari framleiðsla á málminum á sér gjarnan stað og endar álið þá í einni af fjölmörgum vörum sem Alcoa eða viðskiptavinir fyrirtækisins þarfnast - allt frá því að vera gosdós í ísskápnum þínum í að vera þota sem flytur þig milli heimsálfa.

Endurvinnsla
Ál er vafalítið með verðmætustu efnum sem hægt er að endurvinna með góðu móti. Í Bandaríkjunum einum eru framleiddir um 100 milljarðar af gosdósum á hverju ári. Rúmlega 2/3 hlutar af þessum dósum skila sér til endurvinnslu. Það sama á við um 85-90 prósent af álinu sem notað er við framleiðslu bíla.

Allir hagnast á notkun áls. Þeim mun meira sem notað er af áli í bíla, þeim mun léttari eru þeir, eyða minna bensíni og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar ál er endurunnið þarf til þess 95 prósent minni orku heldur en við frumvinnslu efnisins. Að auki dregur það úr þörfinni á losun fráfallsefna í jarðveg.