17. maí 2022

Stjórn SI á ferð um Austurland

Stjórn Samtaka iðnaðarins heimsótti Austurland dagana 9. og 10. maí og kom víða við á vinnustöðum hér eystra. Þau gáfu sér góðan tíma í heimsókn hjá Alcoa Fjarðaáli mánudaginn 9. maí, byrjuðu á því að hlusta á kynningu frá forstjóra fyrirtækisins um það sem efst er á baugi áður en þau fóru í skoðunarferð um kerskála og steypuskála. Hópurinn taldi samtals 11 manns en í stjórninni situr fólk sem kemur úr ýmsum greinum iðnaðar á Íslandi.

Daginn eftir stóð SI fyrir opnum fundi um atvinnulíf á Austurlandi í Valaskjálf á Egilsstöðum og þar tók Einar Þorsteinsson forstjóri Alcoa Fjarðáls þátt og var með framsögu. Hann lagði sérstaklega áherslu á húsnæðisvandann sem blasir við hér á Austurlandi og hvernig það ástand hefur staðið fyrirtækinu fyrir þrifum í ráðningum síðustu misserin. Einnig fjallaði Einar um stefnu Alcoa og hvernig fyrirtækið leggur áherslu á að leita nýrra leiða í áliðnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þar vísaði Einar meðal annars til Elysis tækninnar sem miklar vonir eru bundnar við en hún kann að leiða til þess að hætt verður að nota kolefni við framleiðslu áls.

2022-05 SI Heimsókn 2
Gestir frá SI í anddyri Alcoa Fjarðaáls.



2022-05 SI Heimsókn 2

Hilmar Sigurbjörnsson í mannauðsteymi Fjarðaáls fylgdi gestunum um svæðið.

2022-05 SI Heimsókn 1

Einar Þorsteinsson, forstjóri Alcoa Fjarðáls, flutti erindi á fundi SI um atvinnulíf á Austurlandi.