18. maí 2022

Samfélagsskýrsla Alcoa Fjarðaáls fyrir árið 2021 er komin út

Alcoa Fjarðaál sf. gefur nú út samfélagsskýrslu í sjötta sinn og fylgir alþjóðlegum GRI (Global Reporting Initiative Standards) staðli um samfélagsábyrgð fimmta árið í röð. Grænt bókhald fyrirtækisins er hluti af skýrslunni líkt og í fyrri skýrslum. Með árlegri útgáfu á samfélagsskýrslu er fyrirtækið að auka gegnsæi í starfsemi þess sem felst meðal annars í því að gera grein fyrir árangri, stöðu verkefna og tölulegum upplýsingum um umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir auk áhrifa á samfélag, mannauð, efnahag og virðiskeðju.

Alcoa er starfrækt víðs vegar um heiminn og leggur ríka áherslu á að fylgja vinnuferlum til að draga úr spillingu og efla gegnsæi í starfsemi félagsins. Á árinu 2021 var áfram tryggt að starfsmenn hljóti þjálfun varðandi spillingu, mútugreiðslur, mansal og persónuvernd. Framkvæmdastjórn Fjarðaáls leggur ríka áherslu á samvinnu við hagsmunaaðila á Íslandi, byggt á leiðbeinandi vinnureglum frá móðurfélaginu, með það að markmiði að ná betri árangri á sviði efnahags-, samfélags- og umhverfismála.

Ávarp forstjóra

Í ávarpi sínu segir Einar Þorsteinsson að árið 2021 hafi verið ótrúlegt ár í margvíslegum skilningi líkt og árið á undan. „Heimsfaraldur hélt okkur í heljargreipum annað árið í röð og þurfti  að skipuleggja alla starfsemi með farsóttina í huga. Þær miklu vonir sem voru bundnar við bólusetningu gengu ekki eftir og því þurftum við áfram að neita okkur um fjölmarga hluti líkt og starfmannaskemmtanir, fundi og ferðalög.“

Einar segist vera er afar stoltur af því hvernig starfsfólk hefur staðið sig á þessum erfiðu tímum og þakklátur fyrir þær fórnir sem fólk þurfti að færa til að tryggja öryggi á vinnustaðnum. Hvað reksturinn varðar árið 2021 þá varð algjör viðsnúningur hvað afkomu varðaði. Heimsmarkaðsverð á áli fór að rjúka upp en hafði fram að því verið í mikilli lægð í nokkur ár.

Á árinu 2021 flutti Alcoa Fjarðaál út vörur fyrir rúma 111 milljarða króna og þar af urðu 37,3 milljarður króna eða 34% eftir í landinu. Þá greiddi fyrirtækið ríflega einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi.

Fleiri áhugaverðar tölur og niðurstöður er að finna í samfélagsskýrslunni sem er gefin út rafrænt og hana má nálgast á slóðinni http://alcoa.samfelagsskyrsla.is/. Á síðunni er að finna PDF útgáfu af skýrslunni og einnig er hægt að fletta henni með því að skoða vefsíðuna.

2021_umhverfisvoktun_1
2021_umhverfisvoktun_1
2021_umhverfisvoktun_1