15. apríl 2022

Vel heppnað nýsköpunarmót Álklasans 2022

Þann 30. mars sl. var haldið hið árlega nýsköpunarmót Álklasans. Af því tilefni var gefið út sérblað sem fylgdi Morgunblaðinu en það má nálgast á heimasíðu Samáls. Mikil gróska einkennir nýsköpunarverkefni innan geirans hvort sem er á vettvangi sprotafyrirtækjanna eða nýsköpunarverkefna innan álveranna sjálfra.

Venju samkvæmt voru veittar hvatningarviðurkenningar Álklasans en í ár voru það fjögur nemendaverkefni sem hlutu þær og þykja standa fram úr á sviði áltengdrar nýsköpunar. Alcoa Fjarðaál er einn af stuðningsaðilum viðurkenninganna.  Áherslur á snjallvæðingu og grænar lausnir voru áberandi í þessum verkefnum og kallast það vel á við áherslu iðnaðarins um þessar mundir.

Nemendurnir sem fengu viðurkenningu í ár eru: Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, Háskólanum í Reykjavík: Hönnun á stafrænum tvíbura fyrir málmflæði hjá Alcoa Fjarðaáli með áherslu á búnað og gögn; Kamaljeet Singh, Háskólanum í Reykjavík: Grunnrannsóknir á rafgreiningu með eðalskautum; Jóhanna Lóa Ólafsdóttir og Ragnar Loki Ragnarsson, Háskóla Íslands: Nýr umhverfisvænn kragasalli og Lingxue Guan, Háskóla Íslands: Að samþætta öfluga osmósu með föngun CO2 fyrir raforkuframleiðslu og kolefnisbindingu. 

Hvað er snjallálver?

Meðal fjölda áhugaverðra kynninga var framlag Maríu Óskar Kristmundsdóttur, framkvæmdastjóra framleiðsluþróunar og upplýsingatækni hjá Alcoa, „Snjallar lausnir í álframleiðslu.” María Ósk rakti sögu snjallvæðingar álvers Alcoa Fjarðaáls, allt frá þeim tíma sem fyrirtækið hafði frjósaman grænan reit til þess að sá fræjum ferla, tækni og fólks, fram að þeim tíma sem álverið fékk að uppskera ávinninginn af sjálfbæru, stafrænu, vottuðu og samþættu framleiðslukerfi.

Þegar María Ósk hóf störf í álverinu árið 2005 var það í byggingu en hún kveður það ljóst að Alcoa lagði mikinn metnað í þessa starfsstöð hvað varðar sjálfbærni, þátttöku starfsmanna, sjálfvirkni, stafræna væðingu og stöðugar umbætur. María Ósk átti hlut í að innleiða bæði sjálfvirknikerfin í álverinu sem og hugbúnaðarkerfin sem notuð eru við framleiðslu. „Ég hef síðan séð snjalla álverið okkar rísa upp frá grunni og verða eitt fullkomnasta álver í heimi,” sagði hún.

 „Á þessum græna velli sáðum við fyrst fræjum ferla,“ sagði María Ósk. „Ferlalíkanið hjá Fjarðaáli var frá upphafi hannað til að vera samþætt stjórnkerfi. Það þýðir að allir ferlar, staðlaðar verklagsreglur og verklýsingar uppfylla kröfur viðskiptavina, kröfur starfsleyfis og allar opinberar kröfur sem og umhverfis-, sjálfbærni-, öryggis- og gæðastjórnunarstaðla.  Nýjasta vottunin okkar er frá Aluminum Stewardship Initiative (ASI), sem staðfestir sjálfbæra framleiðslu okkar á áli.“

Sterkt stjórnkerfi

María Ósk sagði að hið sterka stjórnkerfi sem Fjarðaál hefur innleitt sameini starfsmenn á hverjum degi og hverri vakt til að ræða markmið og áskoranir, fara yfir ferlamælikvarða og ákveða aðgerðir til úrbóta og lausnar vandamála. „Stjórnkerfið er einnig sá frjói jarðvegur sem þarf fyrir metnaðarfulla stefnu sem styður að sjálfbærri þróun, rekstrarárangri, stafrænni væðingu og sjálfvirkni ásamt því að nýta orku okkar og framleiðslugetu á skilvirkan hátt.“

Eins og er getur hver starfsmaður hjá Fjarðaáli fengið aðgang að öllum samskiptum í gegnum snjalltækið sitt, hlotið þjálfun á vinnustaðnum, fylgst með og bætt færni sína og haldið utan um frammistöðu sína í samræmi við bestu starfsvenjur.  Viðhald byggir að miklu leyti á snjalltækjum til þess að biðja um, skipuleggja og framkvæma viðhaldsaðgerðir og aðgerðirnar eru áætlaðar með því að nota gervigreind til að spá fyrir um og koma í veg fyrir bilanir í búnaði. Skipulagning framleiðslunnar fer í auknum mæli fram sjálfvirkt og vélrænt nám verður notað í framtíðinni til að gera ákvarðanatöku sjálfvirka og lágmarka þörfina fyrir mannlegt inngrip. Sem stendur er framleiðslan hjá Fjarðaáli að miklu leyti sjálfvirk, en með frekari endurbótum sem fela í sér sjálfstýrð farartæki (AGV), hálfsjálfvirka krana, vélmenni og liðsinnisróbóta (e. cobots) verður álverið enn snjallara og framtíðin er björt.

Maria_Osk

María Ósk Kristmundsdóttir

Vidurkenningar_alklasans

Handhafar hvatningarviðurkenninganna ásamt fulltrúum stuðningsaðila