10. mars 2022

Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína hjá Fjarðaáli

Hlobbi-1

Flest fyrirtæki hafa haldið að sér höndum hvað varðar umbætur, nýbyggingar og breytingar á meðan heimsfaraldur kórónuveiru gengur yfir. Á þessum erfiðu tímum hefur Alcoa Fjarðaál t.d. ekki ráðist í slík verkefni, þar sem kringumstæður hafa verið óhagstæðar. Framleiðslugeta margra birgja hefur verið takmörkuð á sama tíma og flutningskostnaður hefur hækkað gríðarlega.


Áratugur frá síðustu stórframkvæmdum
Þann 9. júní árið 2012 var vígð ný kersmiðja hjá Fjarðaáli. Heildarkostnaður við það verkefni voru um 4,6 milljarðar króna og hún skapaði rúm 40-50 ný störf. Síðan þá hefur verið ráðist í ýmsar framkvæmdir en ekki af þessari stærðargráðu, bæði vegna lágs álverðs og svo heimsfaraldursins. Nú er hagurinn hins vegar tekinn að vænkast og fyrirtækið hyggst ráðast í nokkur mismunandi stór verkefni á næstu tveimur árum. Gerð hefur verið ný áætlun vegna þeirra, bæði hvað varðar tíma, kostnað og mönnun og síðast en ekki síst: umhverfi, heilsu og öryggi sem eru eins og ávallt forgangsmál hjá Alcoa.

Við báðum Hlöðver Hlöðversson, sem er verkefnastjóri fjárfestinga hjá Fjarðaáli, að taka saman stærstu verkefnin framundan fyrir lesendur Fjarðaálsfrétta og lýsa þeim.

 

Meiri hagræðing og aukinn stöðugleiki
„Eitt af stóru verkefnunum sem við höfum verið að vinna í var að útbúa sérhannaðar brýr til þess að tengja við straumleiðarann í kerskála,“ segir Hlöðver og bætir við að flóknar viðgerðir á leiðurum í segulsviði verði framkvæmdar án þess að þurfa að rjúfa strauminn af kerskála. „Stöðugleiki í kerskála er lykilatriði til þess að ná árangri og því mikilvægur áfangi að þurfa ekki að raska stöðugleikanum með miklum straumsveiflum,“ segir hann. Þess má geta að með stöðugleika eru ekki aðeins hámörkuð góð vinnubrögð, heldur gegnir stöðugleiki mjög stóru hlutverki til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hlöðver segir: „Einnig er búið að festa kaup á nýjum bíl sem mun sjá um áfyllingu flúors á kerin í kerskála og léttir þar með undir brúarkrönunum. Bíllinn verður afhentur á næsta ári. Brúarkranarnir eru stórir og voldugir og því felst sparnaður í því að nota frekar þennan bíl.“

Viðgerðir á straumleiðara hófust upp úr áramótum og á þessu ári eru jafnframt framkvæmdar umfangsmiklar viðgerðir á gólfum í kerskála, að sögn Hlöðvers.


Fjórða iðnbyltingin
Að sögn Hlöðvers er Fjarðaál stórhuga í að gera góðan vinnustað enn betri. „Árið 2022 verður stórt þegar kemur að fjárfestingum og það stærsta í um tíu ára skeið. Verkefnin eru af ýmsum toga og umfang þeirra verður um tveir milljarðar. Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína hjá Fjarðaáli og víða er verið að undirbúa og innleiða lausnir með aukinni sjálfvirknivæðingu. Innan skamms munum við sjá meira af gervigreind, myndgreiningu og róbótum í verksmiðjunni til þess að létta verkin og staðla verklag. Undirbúningur við innleiðingu sjálfkeyrandi ökutækja er hafin og spennandi tækifæri þar framundan sem við sjáum verða að veruleika á næstu misserum.“

Myndin hér fyrir neðan sýnir nýja brú sem verið er að setja upp og prófa.

Hlodver_bru