25. september 2019

Alcoa Fjarðaál styrkir endurbyggingu gangnamannakofa á Laugavöllum

Einn af þeim styrkjum sem veittir voru í vorúthlutun Fjarðaáls 2019 rann til Ferðafélags Fljótsdalshéraðs til þess að hefja endurbætur á gamla gangnamannakofanum í Laugavalladal norðan Kárahnjúka. Ferðafélagið sótti um styrkinn í samstarfi við landeigendur.

Í Laugavalladal er að finna rústir nokkurra býla. Sá bær sem síðast var búinn hét Laugavellir og fór hann í eyði árið 1906. Býlið var reist árið 1900 af hjónunum Guðrúnu Hálfdánardóttur sem ættuð var úr Skaftafellssýslu og Stefáni Andréssyni frá Gestreiðarstöðum. Þau voru fyrstu og einu ábúendur Laugavalla og bjuggu þar einungis í sex ár. Jörðin var afskekkt og hátt yfir sjávarmáli auk þess að vera langt inni í landi. Veður gátu því verið vond og svo fór að vorið 1906 misstu Stefán og Guðrún flest sitt fé í stórhríð. Stuttu síðar lést Stefán og Guðrún flutti burt sama ár með börn sín þrjú, móður og bróðurson og húsin voru jöfnuð við jörðu.

Gagnamannakofi var síðar reistur á rústum Laugavallabýlisins og stendur enn í dag. Kofinn hefur í áratugi reynst gott skjól gangnamönnum sem safna haust hvert fé af hinum víðfeðmu Brúardölum. Kofinn hefur líka verið skjól gesta sem hafa lagt á sig ferðalagið til að komast í heita fossinn sem fellur neðan við bæjarstæðið.

Ingibjörg Jónsdóttir, land- og umhverfisfræðingur MSc og verkefnastjóri hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs segir að aðgengi að svæðinu hafi batnað til muna eftir Kárahnjúkastífla var reist og þar með jókst fjöldi ferðamanna. Endurbygging kofans er því eitt verkefni af mörgum sem tengist viðhaldi og endurbyggingu á svæðinu þar sem unnið er að  því að halda í sjálfbærni Laugavalla sem ferðamannastaðar.

„Styrkurinn frá Alcoa nýttist vel í sumar en þá var austurstafn kofans endurgerður með standandi þjölum til að halda í upprunalega ásýnd,“ segir Ingibjörg. „Keypt var ný hurð og gluggi á stafninn og nýtt gólf var sett í húsið úr pallaefni með rifum fyrir öndun. Unnið var að undirbúningi við að koma hitalögnum – eða spírölum – undir gólfið sem verða tengdar í heita uppsprettu, um 23 metra frá kofanum. Náttúruleg lokuð hringrás verður á vatninu sem er knúin áfram af lítilli dælu tengdri sólarsellu og því endurnýjanleg orka nýtt til að fá yl í kofann.”

Meðfylgjandi myndir sýna kofann eftir breytingarnar.

 

Laugavellir_2
Kofinn að utan eftir breytingar: nýr stafn, hurð og gluggar


Laugavellir_2
Kofinn að innan eftir breytingar: nýtt gólf