06. nóvember 2018

Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum 100 stærstu fyrirtækja er 26%

Félag kvenna í atvinnulífi (FKA) stóð fyr­ir ráðstefn­unni „Rétt' upp hönd“ sem var haldin þann 31. október á Hilton Reykjavík Nordica. Fé­lagið hef­ur ásamt sam­starfsaðilum úr vel­ferðarráðuneyt­inu, Sjóvá, Deloitte, Morg­un­blaðinu og Pip­ar/​TBWA sett af stað hreyfiafls­verk­efnið Jafn­væg­is­vog­ina. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Fimmtíu fyrirtæki skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að vinna að jafnrétti á ráðstefnunni en meðal þeirra var Alcoa Fjarðaál.

Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins er einungis 26%, konur eru einungis 10% forstjóra og 19% stjórnarformanna. Staðan í stjórnum er þó umtalsvert betri þar sem konur eru orðnar 40% stjórnarmanna á móti 60% körlum í 100 stærstu fyrirtækjunum. Deloitte hefur tekið saman greiningu á 100 stærstu fyrirtækjum landsins mælt í veltu og komu þessar upplýsingar meðal annars fram á ráðstefnunni.

32,6% konur stjórnarmenn í fyrirtækjum með fleiri en 50 starfmenn

Ári eftir gildistöku laga um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja sem tóku gildi árið 2013 var hlutfall kvenna orðið 33,2% í stjórnum fyrirtækja með yfir 50 starfsmenn, en hefur lækkað síðan þá um 0,6% eða niður í 32,6%.

Eitt af verkefnum Jafnvægisvogarinnar var að gera samantekt á stöðu stjórnenda eftir kyni í íslensku atvinnulífi og hjá opinberum aðilum. Hafa niðurstöðurnar verið birtar í mælaborði sem aðgengilegt er á heimasíðu FKA. Í mælaborðinu kemur fram að á árinu 2017 voru konur 24% stjórnarformanna íslenskra fyrirtækja, óháð stærð, sem er lítilsháttar hækkun frá aldamótum þegar konur voru 22% stjórnarformanna.

Konur í framkvæmdastjórnum eru einungis 22% í skráðum félögum og 26% í 100 stærstu fyrirtækjum landsins, mælt eftir veltu. Þess má geta að hjá Fjarðaáli sitja þrjár konur í framkvæmdastjórn fyrirtækisins en það jafngildir 25% hlutfalli.

Viljayfirlýsingin

Ljóst að töluverðar breytingar þurfa að eiga sér stað til þess að yfirlýstu markmiði Jafnvægisvogar-innar verði náð. Sem liður í því vitundarátaki skrifaði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttisráðherra undir viljayfirlýsinguna. Á sama tíma skrifuðu á milli fjörutíu og fimmtíu fyr­ir­tæki og opinberir aðilar, þ.m.t. Alcoa Fjarðaál, undir viljayfirlýsingu um að beita sér fyrir auknu kynjajafn­vægi inn­an sinna vé­banda og vinna að markmiðum Jafnvægisvogar FKA næstu fimm árin. Fyrirtæki og stofnanir vilja þannig sýna í verki að þau hafi áhuga á að kom­ast lengra í þess­um efn­um. Strax á næsta ári verða veittar viðurkenningar þar sem dregin eru fram í sviðljósið fyrirtæki og opinberir aðilar sem hafa náð markmiðum Jafnvægisvogarinnar. 

 

FKA-1

Þátttakendur rétta upp hönd fyrir fleiri konum í stjórnum fyrirtækja.


FKA-1

T.f.v.: Dagmar Ýr Stefánsdóttir og Guðný Björg Hauksdóttir, sem báðar sitja í framkvæmdastjórn Fjarðaáls, fylgjast með ráðstefnunni.