08. febrúar 2018

Starf nemendaleikfélagsins Djúpið gefur menningarlífi í Fjarðabyggð nýjar víddir

Á undanförnum árum hefur Alcoa Fjarðaál styrkt Nemendaleikfélag Verkmenntaskóla Austurlands en það var stofnað haustið 2005. Vorið 2006 setti leikfélagið á fjalirnar sinn fyrsta söngleik, Cry Baby. Síðan þá hefur Djúpið sett á svið á hverju ári eða samtals 12 verk. Hafa verkin flest verið í söngleikjaþema en þó eru nokkur sem falla ekki þar undir.

Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands

Svanlaug Aðalsteinsdóttir, verndari leikfélagsins Djúpsins rifjar upp helstu áfanga í sögu leikfélagsins: „Haustið 2012 var stofnuð listaakademía við VA og var starfi leikfélagsins þá breytt í að vera áfangar innan skólans sem nemendur fá einingar fyrir og er kennt allt skólaárið. Í listaakademínuáfangunum er lögð áhersla á að kynna nemendur fyrir ólíkum listgreinum og þar er haft að markmiði að nemendur kynnist og fái innsýn í þrjár til fjórar listgreinar á önn. Ásamt því er unnið að því að finna verk fyrir hópinn til að setja á svið á vorönn.“ 

„Alls kyns vinna fylgir því að setja verk á svið,“ segir Svanlaug, „því að verk eru ólík og krefjast mismunandi undirbúnings eins og til dæmis í tónlist, persónusköpun, sviðsmyndavinnu og búningavinnu svo eitthvað sé nefnt. Eitt af því sem listaakademían gerir er að fá til sín gestakennara á því sviði lista sem verið er að vinna með á hverjum tíma.“

Að sögn Svanlaugar er haldið leiklistarnámskeið á hverju hausti fyrir hópinn. „Hinir ýmsu ýmsu leikstjórar hafa komið að því að halda þessi námskeið og hafa þau því verið mjög ólík. Einnig höfum við fengið til okkar söngkennara til að halda námskeið þegar við höfum verið að setja upp söngleiki og fengum t.d. til okkar hana Heru Björk í fyrra.“

 

Gott menningarstarf innan og utan VA

„Leikfélagstarfið lífgar óneitanlega upp á félagslíf nemenda í VA og hefur einnig gefið menningarlífi í Fjarðarbyggð nýjar víddir að ég tel,“ segir Svanlaug. „Við leggjum okkur fram við að hafa sýningarnar okkar metnaðarfullar og hefur það skila sér í áhorfi. Leikfélagið sýnir yfirleitt hverja sýningu 5-8 sinnum og hafa sýningar verið mjög vel sóttar þrátt fyrir að við séum alltaf að sýna um hávetur og Oddsskarðið stundum verið okkur mjög erfitt.

En nú verður breyting á með tilkomu Norðfjarðargangna svo að allir ættu að geta komið og séð sýningarnar hjá Djúpinu.“

Svanlaug segir að í ár eigi að fara aðrar leiðir með áfangann. Skólinn stefnir að því að hafa hann viðburðartengdan svo að nemendur spreyta sig við að setja upp tvo til þrjá viðburði á önn í stað eins stórs viðburðar.

Að lokum segir Svanlaug: „Alcoa Fjarðaál hefur verið afar dyggur styrktaraðili okkar undanfarin ár og má segja að Alcoa hafi greitt fyrir öll leiklistarnámskeið frá því 2010 ásamt því að hafa einnig stundum styrk okkur í uppsetningu á sýningum eins og til dæmis á þessu ári. Kunnum við Alcoa kærar þakkir fyrir.“

 

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá starfi leikfélagsins Djúpsins.


Djupid_5

Djupid_5
Djupid_5