19. desember 2017

Innleiðing Vináttuverkefnis í leikskólum á Austurlandi

Í sumar stóð Skólaskrifstofa Austurlands fyrir svokölluðu Vináttuverkefni í samvinnu við samtökin Barnaheill. Styrktarsjóður Alcoa Fjarðaáls veitti styrk til verkefnisins.

Undirbúningur verkefnisins

Sigurbjörn Marinósson, forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands segir: „Við hófumst handa við að undirbúa innleiðingu Vináttuverkefnis Barnaheilla á Austurlandi á haustmánuðum 2016. Þá var haft samband við leikskóla á Austurlandi og áhugi kannaður. Leikskólar sýndu strax mikinn áhuga og vilja til að vera með. Jafnframt var leitað eftir samstarfi við Barnaheill. Þar voru viðbrögðin ekki síðri. Þegar hugað var að leiðum til að létta á fjármögnun við verkefnið kom styrktarsjóður Alcoa Fjarðaáls fljótt upp í hugann. Sótt var um styrk og barst jákvætt svar á vormánuðum 2017. Við fengum styrk upp á hálfa milljón og það voru gleðilegar fréttir sem réðu í raun úrslitum um þetta verkefni.“

Námskeið fyrir leiðbeinendur

Þann 13. júní 2017 var haldið dags námskeið á Egilsstöðum. Öllum leikskólum á Austurlandi var boðin þátttaka og 20 þátttakendur úr leikskólum mættu. Leiðbeinendur komu frá Barnaheill, þær Linda Hrönn Þórisdóttir og Kristín Laufey Guðjónsdóttir.

Námskeiðið tókst í alla staði vel. Keyptar voru verkefnatöskur fyrir hvern leikskóla sem sendi fulltrúa á námskeiðið. Í verkefnatöskunni  er að finna efni handa börnum, foreldrum og starfsfólki leikskólans, auk kennsluleiðbeininga, þar sem jafnframt eru hugmyndir að frekari verkefnum. 

Að sögn Sigurbjarnar er mikil áhersla lögð á að leikskólar noti sem fjölbreyttust verkefni til þess að öll börnin geti nýtt styrkleika sína og lagt sitt af mörkum til að vera góður félagi og að sýna vináttu, umhyggju og hugrekki. „Innleiðing verkefnisins hefur gengið vel þó skólar séu komnir mislangt á leið með innleiðinguna á þessari stundu,“ segir hann. „Verkefnið er mjög gott til að koma í veg fyrir einelti í hverri mynd sem það birtist. Þar sem verkefnið er komið af stað er unnið markvisst eftir leiðbeiningum og eru börnin ánægð.“

Hugmyndafræði og gildi

Í lýsingu á verkefninu kemur fram að efnið byggir á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu leikskólastarfinu  og er órjúfanlegur hluti þess í allri vinnu og starfi leikskóla sem vinnur með Vináttu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og samskipti í leikskólasamfélaginu.

Hugmyndafræðin endurspeglast í gildunum fjórum sem er að finna á heimasíðu Barnaheilla:

  1. Umburðarlyndi. Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.
  1. Virðing. Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða mismunandi hátterni annarra.
  1. Umhyggja. Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  1. Hugrekki. Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Vináttuverkefnið hefur haldið áfram meðal leikskóla á Austurlandi og tekið á sig ýmsar myndir.

Dæmi frá leikskólanum Lyngholti

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá göngutúr barna í Birkiholti (einum af deildum leikskólans Lyngholts) þann 5. október sl. en það var hluti af Vináttuverkefninu þar. Fjólublái bangsinn nefnist Blær sem kom siglandi frá Ástralíu til þess að koma í heimsókn til barnanna í Birkiholti.

Guðlaug Erna Álfgeirsdóttir, deildarstjóri á Birkiholti segir: „Við reynum að hafa Blæ stund einu sinni í viku þá fara litlir hópar inn í herbergi þar sem við heilsum Blæ og flestir vilja knúsa hann, síðan fá þau litlu bangsana. Við skoðum myndir og spjöllum um það sem er að gerast á myndunum, við lesum sögu sem tengist því sem myndin fjallar um í hvert skipti. Við höfum rætt mikið að það má ekki stríða og hvað við getum gert til að hjálpa ef við sjáum að það er verið að stríða örðum eins hvað við getum gert þegar einhver er að stríða okkur.“

Hún segir að öllum börnunum finnist gaman að koma í Blæ stund og fá að vera með litlu bangsana. „Þetta er róleg og notaleg stund, þar sem við eflum tengsl á milli kennara og barna sem og Blæ. Markmiðið er meðal annars með verkefnunu að þau treysti Blæ og geti opnað sig, því er gott að þau kynnist honum þau þau skilji ekki efnið alveg strax.“

Myndir frá gönguferð barnanna í Birkiholti:

Birkiholt_5
Birkiholt_5
Birkiholt_5
Birkiholt_5
Birkiholt_5
Birkiholt_5