07. september 2017

„Tilkoma álversins breytti mörgu“

Á dögunum sýndi sjónvarpsstöðin N4 sérstakan þátt af „Að austan“ í tilefni tíu ára rekstrarafmælis Alcoa Fjarðaáls. Í þættinum ræddi Kristborg Bóel Steindórsdóttir við þrjá aðila, Smára Geirsson, fyrrverandi sveitarstjórnarmann og einn af helstu baráttumönnum fyrir tilkomu álversins, og tvo starfsmenn Fjarðaáls, þau Maríu Ósk Kristmundsdóttur og Elías Jónsson.

 

N4_Smari
(Skjáskot af N4)

Alcoa Fjarðaál færði Austfirðingum störf

Í viðtalinu rifjar Smári upp að í upphafi hafi verið erfitt að fá ráðamenn fyrir sunnan á sitt band en það hafi loksins tekist. „Við höfðum orku sem hægt var að nýta. Menn höfðu lengi barist fyrir því að þessi orka yrði nýtt í þágu landshlutans, í þágu atvinnuuppbyggingar, og það er það sem skiptir máli.“

Smári efast ekki um að það hafi verið gæfuspor fyrir Austfirðinga að fá álverið. „Alcoa Fjarðaál færði okkur fyrst og fremst störf og austfirskt samfélag þurfti svo sannarlega á þeim að halda.“ Hann bendir á að álverssvæðinu séu um það bil 900 störf.

„Ég hugsa um það með hálfgerðri skelfingu hvað hefði gerst í sjávarbyggðunum hér eystra ef Alcoa Fjarðaál hefði ekki komið til,“ segir Smári í viðtalinu. „Tilkoma álversins breytti mörgu, meðal annars viðhorfi fólks til framtíðarbúsetu og breytti viðhorfi ungs fólks varðandi það að setjast að hér eystra.“ Smári tekur fram að ungt fólk flykktist að Austurlandi, framkvæmdir hófust, atvinnulífið varð fjölbreyttara og samfélagið sterkara.

 

N4_Maria
(Skjáskot af N4)

„Eitt stórt ævintýri“

María Ósk Kristmundsdóttir er annar viðmælandi þáttarins. Hún er tölvunarfræðingur að mennt og hóf störf hjá Fjarðaáli árið 2006. María Ósk hefur sinnt ýmsum störfum hjá fyrirtækinu en í upphafi vann hún við að setja upp tölvu- og framleiðslustýringarkerfi Fjarðaáls. Nú er María Ósk ABS-sérfræðingur og tilheyrir framleiðslustjórnunarteymi.

„Þetta er allt saman búið að vera eitt stórt ævintýri,“ segir hún. „Maður er alltaf að kynnast nýju fólki og alltaf að læra eitthvað nýtt. Maður er alltaf með ný og krefjandi verkefni sem er afskaplega jákvætt. Það er vissulega stefna fyrirtækisins að leyfa fólki að þróast í starfi og fá að dafna út frá sínum hæfileikum.“

 

N4_Elias
(Skjáskot af N4)

Álverið byggt í túninu heima

Þriðji og síðasti viðmælandi þessa þáttar „Að austan“ er Elías Jónsson, leiðtogi hjá Fjarðaáli sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi.

Elías segir að sérstaklega vel sé haldið utan um starfsfólk Fjarðaáls. „Velferðaþjónustan hérna er frábær, læknisþjónusta, sálfræðingar, læknisaðstoð og hvað það er sem nöfnum tjáir að nefna. Ekki má gleyma flugferðunum.“ Sem dæmi um áhrif álversins nefnir Elías jarðgöngin yfir á Norðfjörð og Fáskrúðsfjörð. „Þetta er gríðarlega gott upp á búsetudreifingu og annað hér á svæðinu.“

Elías er frá bænum Hólmar sem þurfti að víkja þegar álverið var byggt en aðspurður segir hann að fórnin hafi verið þess virði. „Ég hefði ekki viljað vera án þess [þ.e. álversins], ég veit ekki hvar við værum stödd þá,“ segir hann.

Sjá frétt Austurgluggans og hlekk á viðtölin hér.