16. nóvember 2016

Álframleiðsla jákvæðasta framlag Íslands til loftslagsmála

Í nýútgefnu Tímariti Háskólans í Reykjavík birtist grein eftir Guðrúnu Arnbjörgu Sævarsdóttur, forseta tækni- og verkfræðideildar HR. Guðrún Arnbjörg bendir m.a. á það í greininni hversu mikilvægt sé að taka tillit til loftslagsmála í alþjóðlegu samhengi þegar ákvarðanir eru teknar varðandi virkjanir á endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi.

Álframleiðslan á Íslandi sparar losun upp á 11,6 milljónir tonna af koltvísýringi ár hvert
Guðrún segir að umræðan á Íslandi sé gjarnan „á þann veg að virkjanirnar séu af hinu illa, þar sem tilvist þeirra hefur í með sér umhverfisáhrif.“ Guðrún Arnbjörg nefnir að af þeim 4,5 milljónum tonna koltvísýringsígilda sem heildarlosun vegna ýmiss konar starfsemi á Íslandi telur, komi 1,4 milljónir vegna framleiðslu á 870 þúsund tonnum af áli. Hún skrifar að væru þessi 870 þúsund tonn af áli framleidd í Kína með orku frá kolaorkuverum, væri losun vegna starfseminnar um 13 milljónir tonna ár hvert. „Þar með má segja að álframleiðslan á Íslandi ein og sér spari heimsbyggðinni losun upp á 11,6 milljónir tonna af koltvísýringi ár hvert. Þetta er ríflega tvöföld árleg heildarlosun frá Íslandi.“ Þó Guðrún segist ekki endilega mæla með byggingu fleiri álvera hér á landi þá má segja að „frá sjónarhóli umhverfisins er rekstur þessara álvera sennilega jákvæðasta framlag Íslands til loftslagsmála í dag.“

Margt smátt gerir eitt stórt
Í lok greinarinnar segir Guðrún Arnbjörg: „Þó litla Ísland vegi ekki mikið í heildarlosun í heiminum, verður ekki ráðið við vandann vegna hnattrænnar hlýnunar nema margir aðilar geri marga litla hluti sem samanlagt hafa mikið vægi. 100 MW af raforku frá vatnsafli eða jarðhita sem kemur í stað raforku frá kolaorku einhvers staðar annars staðar minnkar losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum um tæplega 800 þúsund tonn á ársgrundvelli. Þetta þarf að vega á móti náttúruverndarsjónamiðum þegar ákvörðun er tekin um verndun eða virkjun."

Grein Guðrúnar Arnbjargar má sjá í Tímariti HR 2016.

Gudrun_Arnbjorg_Sævarsdottir