Áfram


Prentvæn útgáfa
go

25. október 2013
Forseti Íslands lofar Alcoa Fjarðaál fyrir frumkvæði og forystu í öryggismálum

Í vikunni heimsóttu forsetahjónin, hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff, Alcoa Fjarðaál, en heimsóknin var liður í opinberri heimsókn forsetahjónanna í Fjarðabyggð.

Ólafur Ragnar og Dorrit byrjuðu heimsóknina í álverinu með því að heilsa uppá starfsmenn í matsal fyrirtækisins. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi bauð forsetahjónin velkomin og færði þeim að gjöf orkulykil úr íslensku áli sem listakonan Katrín Ólína Pétursdóttir hannaði. Við afhendinguna sagði Magnús Þór m.a.: „Alcoa Fjarðaál hefur stutt dyggilega við íslenska hönnun og vill gjarnan stuðla að því að íslenskt hönnunarhugvit sé virkjað til að vinna í auknum mæli með íslenskt ál.“ Gjöfin var því táknræn fyrir fyrirtækið.
 
Þessu næst flutti Ólafur Ragnar ávarp. Hann lagði m.a. áherslu á að mikilvægi Íslands á alþjóðavettvangi væri sífellt að vaxa þar sem kastljósinu væri nú í auknum mæli beint að norðurslóðum. Mikilvægt væri fyrir Íslendinga að átta sig á að í þessari breyttu heimsmynd geti Ísland orðið miðpunktur og fjölmörg tækifæri skapast. Forsetinn hrósaði Alcoa fyrir glæsilega uppbyggingu fyrirtækisins í Reyðarfirði og fyrir að vera í fararbroddi fyrirtækja á Íslandi þegar kæmi að öryggismálum.
 
Forsetinn sló á létta strengi og sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með að gamla, gráa Austfjarðarþokan byrgði honum sýn yfir fjörðinn. Hann bað starfsmenn að lofa sér betra útsýni næst þegar hann kæmi í heimsókn. Í lokin gæddu forsetahjónin og fylgdarlið þeirra sér á fiskibollum í glæsilegu mötuneyti Fjarðaáls áður en þau héldu á ný til Bessastaða að lokinni þriggja daga heimsókn í hina blómlegu Fjarðabyggð.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Spjallað við starfsmenn


Forsetahjónin gáfu sér tíma til að ganga milli borða og spjalla við starfsmenn Fjarðaáls sem tóku þeim vel.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Slegið á létta strengi


Forsetinn vonast til þess að Austfjarðaþokunni létti næst þegar hann kemur í Fjarðabyggð.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Forsetahjónin kveðja


Kveðjustund í anddyri Fjarðaáls. T.f.v. Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, frú Dorrit Mousaieff, forsetafrú og Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.