Áfram


Prentvæn útgáfa
go

15. október 2013
Fjarðaálsfréttir um allt Austurland

Fjarðaálsfréttir litu nýlega dagsins ljós. Tímaritið kemur út árlega og er m.a. dreift til allra heimila á Austurlandi, allt frá Höfn til Vopnafjarðar.

Meðal efnis í blaðinu eru skemmtileg viðtöl við starfsmenn. Í þeim hópi er t.d. Marta Zielinska frá Póllandi sem kom óvart til Íslands árið 2006. „Ég var eiginlega að fara að byrja í háskóla í Póllandi þegar Íslandsferðin atvikaðist, en hafði í raun ekki efni á því. Ég ákvað því að safna peningum og fara síðan til Írlands að vinna í nokkra mánuði og fara síðan aftur heim,“ segir Marta, sem fékk í hendur flugmiða, þar sem á stóð Iceland, ekki Ireland. „Ég hugsaði þá bara ókei, ég get alveg eins farið til Íslands, ég þekki hvort eð er engan á Írlandi, ekki frekar en á Íslandi. Ástandið hér var líka gott á þessum tíma þannig að ég sló til.“
 
Marta byrjaði fljótlega að vinna hjá Fjarðaáli. Hún hefur aðlagast vel samfélaginu á Austurlandi og þar líður henni vel. Hún á góða vini og vinnufélaga sem líta á hana sem Íslending og hún segist aldrei hafa upplifað tungumálið sem hindrun, miklu frekar sem spennandi áskorun til að takast á við. „Mér líður eins og Íslendingi og hér vil ég vera. Vinir mínir eru hér, þeir eru mín fjölskylda.“
 
Í blaðinu er líka skemmtilegt viðtal við Freyju Yeatman Ómarsdóttur sem flutti til Ástralíu þegar hún var 6 ára. Að loknum menntaskóla árið 2006, sneri hún aftur, þá 19 ára gömul, og byrjaði að vinna í álveri Fjarðaáls. Hún talaði nær enga íslensku og hafði aldrei komið nálægt vélum. Engu að síður er hún nú einn helsti sérfræðingur fyrirtækisins í rekstri víravélarinnar. Yngri systir Freyju, Sunnefa, fylgdi á eftir frá Ástralíu og fór að vinna í kerskálanum. Freyja kynntist svo sambýlismanni sínum, Róbert, þegar hann kom til starfa á víravélinni, en þau eru núna bæði byrjuð í hátækniverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
 
Einnig eru í blaðinu viðtöl við þrjár aðrar konur, vélvirkja og rafvirkja, en þær segja miklu betri tekjumöguleika vera í hefðbundnum karlastörfum. Þær hvetja konur til að kynna sér betur iðnnám.
 
Þetta er bara brot af því besta. Sjá hlekk hér til hliðar til að skoða blaðið í heild.
 
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Góðir félagar


Marta og Steini, vinnufélagi hennar, ná vel saman í vinnunni.


Viltu skoða blaðið?


Hægt er að hlaða niður blaðinu til þess að skoða eða prenta út.
smelltu hér til að hlaða niður (3,5 Mb)

Skoða eldri blöð


Fjarðaálsfréttir er ríkulega myndskreytt blað sem dreift er til allra heimila á Mið-Austurlandi. Blaðið hefur verið gefið út síðan 2008. Smelltu á slóðina hér fyrir neðan til að skoða eldri blöð.
skoða eldri blöð