Áfram


Prentvæn útgáfa
go

10. júlí 2013
Góður árangur á öðrum ársfjórðungi

Góður árangur náðist í endurskipulagningu rekstrar hjá Alcoa á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Tap samstæðunnar nam 119 milljónum Bandaríkjadala, um 15 milljörðum íslenskra króna.

Meginskýringuna má rekja til lágs álverðs en einnig til greiðslna vegna ýmiss kostnaðar við hagræðingaraðgerðir, svo sem lokun á framleiðslulínum, og fyrirframbókfærðs kostnaðar vegna frekari hagræðingaráforma síðar. Félagið hefur einnig þegar tekið frá fjármuni vegna mögulegrar sektar bandaríska fjármálaeftirlitsins vegna viðskipta í Bahrain.
 
Án áhrifa sérstakra liða nam hagnaður 75 milljónum dollara sem skýrist að mestu af framúrskarandi árangri í framleiðniaukningu og metsölu á verkfræðilausnum og sölu sérvara til viðskiptavina. Við lok annars ársfjórðungs nam handbært fé um 5,8 milljörðum dollara og skuldir hafa lækkað. Á fyrri hluta ársins nam sala á virðisaukandi viðskiptum 57 prósentum af heildartekjum.
 
Klaus Kleinfeld, stjórnarformaður og forstjóri Alcoa, er ánægður með árangurinn sem náðst hefur, einkum árangur í framleiðslu og sölu á virðisaukandi afurðum, þar sem tekjur hafa aldrei verið meiri. Hann segir að vegna lágs álverðs vinni fyrirtækið áfram hörðum höndum að hagræðingu í rekstri til að viðhalda samkeppnisstöðu Alcoa á álmörkuðum. Má þar nefna lokun á óarðbærum framleiðslulínum, þar á meðal stöðvun tveggja framleiðslulína í álverinu í Baie-Comeau í Québec í Kanada. Þá er einnig fyrirhugað að loka álverinu í Fusina á Ítalíu og hefur kostnaður vegna þess uppá 34 milljónir dollara þegar verið bókfærður.
 
Alcoa vinnur áfram samkvæmt áætlunum fyrirtækisins sem gera ráð fyrir að eftirspurn á álmörkuðum vaxi um 7 prósent á árinu 2013. Gert er ráð fyrir að eftirspurn í flugiðnaði vaxi um 9-10%, bílaiðnaði um 1-4%, samgöngum um 3-8%, umbúðaiðnaði um 1-2%, bygginga- og verktakaiðnaði um 4-5% og um 3-5% í framleiðslu á túrbínum fyrir gasiðnaðinn.
 
Frekari upplýsingar
Sjá frekari upplýsingar í tilkynningu Alcoa.