Áfram


Prentvæn útgáfa
go

26. júní 2013
Fjarðaál styrkir landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Neskaupstað

Björgunarsveitir Fjarðabyggðar veittu í gær, þriðjudag, viðtöku 700 þúsund króna styrk frá Alcoa Fjarðaáli til að halda Landsmót unglingadeilda Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Neskaupstað dagana 27. til 29. júní.

Á landsmótið koma ungmenni á aldrinum 13 til 17 ára hvaðanæva að af landinu saman til að læra og æfa allt sem lýtur að starfi björgunarsveita. Einnig verða málefni unglinga innan Slysavarnafélagsins til umræðu.
 
Landsmót unglingadeildanna eru haldin annað hvert ár og var síðast haldið á Dalvík. Í ár er búist við um 300 manns til Neskaupstaðar vegna mótsins, um 200 þátttakendum og um 100 umsjónarmönnum með mótshaldinu.
 
Björgunarsveitir Fjarðabyggðar eru fjórar, Ársól á Reyðarfirði, Gerpir í Neskaupstað, Brimrún á Eskifirði og Geisli á Fáskrúðsfirði. Munu sveitirnar bera hitann og þungann af mótshaldinu fyrir hönd Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
 
Styrkafhendingar Fjarðaáls
Úthlutunarnefnd Alcoa Fjarðaáls, sem skipuð er fulltrúum fyrirtækisins og nærliggjandi samfélaga, úthlutaði í maí vorstyrkjum til samfélagsmála á Austurlandi. Úthlutað var um 6,5 milljónum króna til 29 verkefna. Úthlutunarnefndin hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styrkja verkefni sem lúta að barna- og unglingastarfi og var í vor úthlutað nær þremur milljónum króna til barna- og unglingastarfs af ýmsu tagi.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Undirritun samninga


Frá undirritun samnings Alcoa Fjarðaáls og björgunarsveita Fjarðabyggðar, sem fram fór í gær, þriðjudag, í Þórðarbúð, miðstöð björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði. F.v. Andri Rafn Sveinsson mótsstjóri og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Alcoa á Íslandi. Andri Rafn er Reyðfirðingur að uppruna, nú búsettur í höfuðborginni. Hann starfar með Björgunarsveit Hafnarfjarðar en er enn félagi í Ársól á Reyðarfirði.