Áfram

3. júní 2013
Hreinsuðu ströndina á meðan Vetur konungur fór í frí

Þann 11. maí sl. stóð skátafélagið Héraðsbúar fyrir strandhreinsun í Stapavík en þetta verkefni er hluti af samstarfi þeirra við skátafélag í Ohio í Bandaríkjunum sem Samfélagssjóður Alcoa styrkir.

Samfélagssjóður Alcoa stofnaði til samstarfsins með kvenskátafélögum um allan heim undir slagorðinu „Forever Green.“ Markmið þess er að auka meðvitund almennings um hversu/hvað framlag hvers einasta einstaklings getur skipt miklu máli varðandi umhverfið. Megináherslan er lögð á þrjá liði: að minnka úrgang sem fer til urðunar, draga úr óþarfa orkunotkun og græða upp svokallaða regngarða („rain gardens“). Skátarnir standa fyrir ýmsum umhverfisverkefnum í þessum anda og fá aðra sjálfboðaliða til liðs við sig til þess að sýna góða fyrirmynd í verndun náttúrunnar.
 
Samstarfið felst m.a. í því að skátafélag í einu af tuttugu ríkjum Bandaríkjanna gerist vinafélag skátahóps í einu af tuttugu löndum víðsvegar um heim. Skátafélagið Héraðsbúar á Egilsstöðum tengdist skátafélagi í Ohio í Bandaríkjunum og hafa félögin nú verið í samstarfi gegnum Netið síðan sl. haust og skipst á fræðslu og hugmyndum.
 
Á vordögum var ákveðið að Héraðsbúar skyldu ráðast í strandhreinsunarverkefni. „Við völdum fallega gönguleið út í Stapavík,“ segir Þórdís Kristvinsdóttir, félagsforingi Héraðsbúa. „Þar var mikið af rusli sem var til ósóma á þessum yndislega stað.“ Að sögn Þórdísar var þátttakan mjög góð: alls 74 sjálfboðaliðar að meðtöldum fimm starfsmönnum Alcoa Fjarðaáls.
 
Þórdís er hæstánægð með árangurinn. „Veðrið lék við mannskapinn sem var góð tilbreyting hér á Héraði því Vetur konungur hefur verið lengi að koma sér í frí. Það var tínt mikið af rusli eða um það bil  sextán rúmmetrar, að mestu leyti rusl sem hefur skolað á land. Svo enduðum við daginn á því að grilla pylsur og hita ketilkaffi og þeir yngstu busluðu aðeins í sjónum. Þessi dagur var alveg frábær og vel heppnaður í alla staði.“
 
Þann 5. júní halda átján skátar úr hópi Héraðsbúa, fimmtán krakkar og þrír fullorðnir, til Ohio til þess að taka þátt í strandhreinsunarverkefni ásamt skátunum þar, ásamt því að vera fræddir um umhverfismál, og koma heim þann 14. júní.
 
Þórdís segir að lokum: „Skátar hvetja fólk til að hugsa sig aðeins um áður en það hendir rusli á víðavangi og á hafi úti. Við verðum öll að huga betur að náttúrunni okkar.“
 
Sjá nánar um „Forever Green“ átak Heimsbandalags kvenskáta (WAGGGS) og Samfélagssjóðs Alcoa hér.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Tekið til hendinni


Sjálfboðaliðarnir létu rekaviðinn í friði enda er hann sjálfsagður og verðmætur hluti af náttúru Íslands.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Falleg fjara


Umhverfið er óneitanlega fallegt í Stapavík.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Að loknum góðum degi


Hópurinn var ánægður að loknu dagsverki, enda höfðu sjálfboðaliðarnir safnað saman um 16 rúmmetrum af rusli.