Áfram


Prentvæn útgáfa
go

21. júní 2013
Aukin menntun fjölgar tækifærum fyrir konur á atvinnumarkaði

Fjarðaál hefur á hverju ári síðan 2008 boðið öllum konum í nágrannabyggðum álversins í kvennakaffi á 19. júní, til þess að fagna þeim merka áfanga sem náðist þegar konur fengu kosningarétt árið 1915.

Allt frá upphafi hefur Alcoa Fjarðaál lagt áherslu á jafnt kynjahlutfall innan fyrirtækisins og hefur fyrirtækið sett sér það markmið að konur verði jafnmargar körlum árið 2025. Þær eru nú 21% starfsmanna í fjölbreyttum störfum við stöðuga uppbyggingu og þróun stærsta fyrirtækis á Austurlandi.
 
Ellen Rós Baldvinsdóttir, starfsmaður í áreiðanleikateymi Fjarðaáls og nemandi í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri, var ein þeirra sem ávörpuðu rúmlega 150 gesti, sem komu í kvennakaffi til Fjarðaáls þann 19. júní. Hún ásamt öðrum konum sem starfa hjá Fjarðaáli og stunda nám með vinnu, birtust á ljósmynd í auglýsingu um kvennakaffið í fjölmiðlum í gær, en þær voru t.d. í vélvirkjanámi, MBA námi, meistaranámi og ein þeirra hefur lokið rafvirkjanámi með vinnu sinni hjá Fjarðaáli. Þær sem birtust á myndinni eru aðeins hluti af þeim konum sem fyrirtækið hefur stutt til náms, en fjöldinn nálgast fjórða tuginn.
 
Ellen Rós er lærður nuddari og hafði unnið hjá bílaumboði áður en hún gekk til liðs við Fjarðaál fyrir sjö árum síðan en fyrstu árin var skrifstofa hennar í kjallara eða í gámaþyrpingu við þjóðveginn. Hún sagðist hafa lært margt nýtt hjá fyrirtækinu á hverjum degi og bætti við: „Fyrir þremur árum síðan ákvað ég að fara í fjarnám við Háskólann á Akureyri og læra viðskiptafræði. Ég hafði lengi gengið með þennan draum í maganum að fara í háskóla.“
 
Að sögn Ellenar var krefjandi að vera í fjarnámi, brekkurnar virtust oft brattar og langar. „Fjarðaál hefur stutt mig á þessari göngu,“ sagði hún, „og það munar heilmiklu að geta sótt námslotur norður sem eru einu sinni á önn, haft sveigjanlegan vinnutíma í prófatörnum og greiðan aðgang að fólki með þekkingu og reynslu sem er tilbúið að aðstoða mann í verkefnum og öðru – þetta er ómetanlegt.“
 
Sveigjanlegra vaktakerfi
Ein þeirra aðgerða sem Fjarðaál vill koma í framkvæmd til að auðvelda fjölgun kvenna er að innleiða sveigjanlegra vaktkerfi og verður fyrsta skrefið í þá átt stigið í október, að því er fram kom í ávarpi Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi á kvennadaginn. Hann sagði að áliðnaðurinn væri vissulega karllægur, en „við megum þó una vel við kynjahlutfallið hjá Fjarðaáli í samanburði við sambærileg fyrirtæki, bæði hér á landi og erlendis, enda er hlutfall kvenna því hæsta sem þekkist.“
 
Að loknu kvennakaffinu var gestum boðið í rútuferð um álverið undir leiðsögn Guðnýjar Hauksdóttur, framkvæmdastjóra mannauðsmála, og Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Alcoa á Íslandi.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Allt í bleiku


Um 150 konur þáðu kaffiboðið, hlýddu á ávörp og Vigdís Diljá, ung og upprennandi austfirsk söngkona, skemmti gestunum með hugljúfum lögum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ellen Rós Baldvinsdóttir


Ellen Rós, sem stundar nám með vinnu sinni hjá Fjarðaáli, flytur ávarp.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Á öllum aldri


Kvenfólkið sem mætti í mötuneyti Fjarðaáls var á öllum aldri.