Áfram

24. maí 2013
Vorúthlutun styrkja Alcoa Fjarðaáls - hæsti styrkurinn til landsmóts unglingadeilda Landsbjargar

Alcoa Fjarðaál úthlutaði nýlega vorstyrkjum fyrirtækisins til samfélgsmála á Austurlandi. Að þessu sinni var úthlutað 6,5 milljónum króna til 29 verkefna, þar af nær þremur milljónum til barna- og unglingastarfs af ýmsu tagi, en fyrirtækið hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styrkja slík verkefni.

Alcoa Fjarðaál úthlutaði nýlega vorstyrkjum fyrirtækisins til samfélgsmála á Austurlandi. Að þessu sinni var úthlutað 6,5 milljónum króna til 29 verkefna, þar af nær þremur milljónum til barna- og unglingastarfs af ýmsu tagi, en fyrirtækið hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styrkja slík verkefni.
 
Björgunarsveitir Fjarðabyggðar fengu að þessu sinni hæsta styrkinn, 700 þúsund krónur, til að halda Landsmót unglingadeilda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í lok júní, en þá koma ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára hvaðanæva að af landinu saman á Neskaupstað til að læra og æfa allt sem lýtur að starfi björgunarsveita. Einnig verða málefni unglinga innan Slysavarnarfélagsins til umræðu. Landsmót unglingadeildanna eru haldin annað hvert ár og var síðast haldið á Dalvík. Í ár er búist við um 400 þátttakendum ásamt um eitt hundrað umsjónarmönnum með mótshaldinu í Fjarðabyggð.

Aðrir sem hlutu styrki voru leikfélögin á Norðfirði, Seyðisfirði og á Fljótsdalshéraði sem öll ætla að setja upp barnaleikrit. Félagið á Norðfirði ætlar auk þess að setja upp leikþætti fyrir leikskóla, söfn og skemmtiferðaskip sem koma til Norðfjarðar í sumar. Félagið á Fljótsdalshéraði sýnir í Selskógi til að gæða skóginn lífi, en á Seyðisfirði er ætlunin að setja upp nýtt leikrit í haust eftir íslenskan höfund, Ágúst T. Magnússon.
 
Sumarnámskeið fyrir börn í listum og sköpun var einnig meðal þeirra verkefna sem voru styrkt, sem og Tónlistarbúðir á Eiðum. Umhverfið þar í grennd er fallegt, vatn, skóglendi og lækir. Börnin fá tækifæri til að veiða, fara á báta, baða sig í vatninu, fara á hestbak og umgangast hin ýmsu dýr.

Úthlutunarnefnd Alcoa Fjarðaáls, sem skipuð er starfsfólki fyrirtækisins og fulltrúum samfélagsins á Austurlandi, hefur á undanförnum árum lagt áherslu á að styrkja verkefni sem lúta að barna- og unglingastarfi, þar sem margir foreldrar hafa minna fé handa á milli en áður, til að verja í tómstundastarf barnanna sinna.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Unglingastarf björgunarsveitanna


Krakkar í útivistarskóla björgunarsveitanna sem haldinn var í Loðmundarfirði 2012.