Áfram

19. mars 2013
Alcoa handhafi jafnréttisverðlauna Catalyst

Alþjóðlega álfyrirtækið Alcoa hlaut jafnréttisverðlaun Catalyst fyrir árið 2013. Þetta var tilkynnt á ráðstefnu í New York í dag, þar sem Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls var meðal ræðumanna. Góður árangur Fjarðaáls á sviði jafnréttismála átti ekki síst sinn þátt í árangri Alcoa, en sérfræðingar Catalyst heimsóttu fyrirtækið sl. haust sérstaklega í þeim tilgangi að skoða stjórnskipulag þess m.t.t. kynjahlutfalla og fleiri þátta. Auk Alcoa hlutu CocaCola og Unilever jafnréttisverðlaun Catalyst.

Alcoa hefur um árabil unnið markvisst að því að fjölga konum í starfsliði sínu í áliðnaðinum, þar sem karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta. Verkefnið kallast „Building Opportunies for Women in „Hard Hat“ Company.“ Staða jafnréttismála hjá Fjarðaáli hefur vakið nokkra athygli hjá fyrirtækjum Alcoa á heimsvísu og ákváðu sérfræðingar Catalyst að rýna sérstaklega stjórnun starfseminnar á Reyðarfirði í úttekt þeirra á fyrirtækinu.
 
Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá  Alcoa Fjarðaáli, segir að verðlaunin séu mikill heiður fyrir Alcoa sem og  allt starfsfólk Fjarðaáls og viðurkenning á þeim áherslum, gildum og stefnum sem fyrirtækið hefur lagt áherslu á og unnið eftir frá því að fyrirtækið tók til starfa 2005.
 
Yfirlit um hlutdeild kvenna í hinum ýmsu stöfum hjá Fjarðaáli
  • Fjöldi kvenna í starfsliði Fjarðaáls í heild 20%
  • Framkvæmdastjórn Fjarðaáls 27%
  • Leiðtogar í framleiðsluferlum í álveri 10%
  • Löggiltir iðnaðarmenn 6%
  • Véla- og tækjastjórar 21%
 
Jafnréttisstefna Alcoa Fjarðaáls fylgir lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Langtímamarkmið Fjarðaáls er að helmingur starfsmanna séu konur. Jafnframt tengir fyrirtækið jafnréttisstefnu sína við gildi fyrirtækisins sem Alcoa starfar eftir um allan heim.
 
Um Catalyst
Catalyst er alþjóðleg sjálfseignarstofnun, sem leggur áherslu á rannsóknir og greiningar á sviði jafnréttismála með áherslu á aukin atvinnutækifæri og þátttöku kvenna. Stofnunin tók til stafa árið 1962 og er með skrifstofur í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Indlandi. Alcoa er meðal rúmlega 600 aðildarfélaga í Catalyst og fól fyrirtækið stofnuninni að taka út jafnréttismál hjá fyrirtækjum Alcoa um allan heim.
 
Fréttatilkynning frá Alcoa Fjarðaáli 19. mars 2013.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Guðný Björg Hauksdóttir


Guðný Björg Hauksdóttir er framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá  Alcoa Fjarðaáli.