Áfram

24. janúar 2013
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sendir forstjóra Alcoa Fjarðaáls heillaóskir

Í kjölfar þess að forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Janne Sigurðsson, hlaut nýlega bandarísku Stevie-gullverðlaunin, sem forstjóri ársins í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, hefur Hillary Rodham Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sent Janne heillaóskir. Janne veitti viðtöku kveðju untanríkisráðherrans í móttöku sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga, í dag, föstudaginn 18. janúar.

Janne hlaut verðlaunin fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð á þeim sex árum sem liðin eru frá því að hún gekk til liðs við Alcoa. Á þessum tíma hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi, en hún býr á Eskifirði.
 
Luis E. Arreaga, sendiherra segir það mjög ánægjulegt að með Stevie-gullverðlaununum hefði Janne Sigurðsson verið valin forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Hann segir að af þeirri ástæðu hafi Hillary Rodham Clinton viljað óska Janne innilega til hamingju með viðurkenninguna.
 
Í heillaóskabréfi Hillary Rodham Clinton segir:
„Fyrir hönd utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna er mér sönn ánægja af því að óska þér til hamingju með Stevie-gullverðlaunin, þar sem þú varst útnefnd forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku. Ég fagna framúrskarandi viðleitni þinni til að byggja upp álver Fjarðaáls og gera það að einu fullkomnasta álveri heims (state-of-the-art), þar sem uppfylltar eru ítrustu kröfur um öryggi starfsmanna og umhverfis. Ég er þér einnig þakklát fyrir framúrskarandi virka þátttöku í samfélaginu á Austurlandi með öflugum stuðningi við menningarstarf og viðleitni til að stuðla að umbótum í menntun og umhverfi. Viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna er mikilvægur grundvöllur tvíhliða samskipta landanna. Bandaríkin meta mjög mikils störf þín á Íslandi, sem endurspegla háleitustu hugsjónir í bandarískum atvinnurekstri: sjálfboðaliðastörf, samfélagslega ábyrgð og samfélagsþróun. Vinsamlegast athugaðu að við fylgjumst spennt með störfum þínum í framtíðinni, og sendi ég þér mínar bestu óskir um áframhaldandi velgengni. Með hamingjuóskum og bestu kveðjum, þín einlæg, Hillary Rodham Clinton.“
  
Bakgrunnsupplýsingar
Stevie verðlaunin eru alþjóðleg verðlaun sem veitt eru árlega þeim sem skara fram úr í stjórnun stofnana og fyrirtækja um allan heim. Rúmlega 200 stjórnendur sátu í dómnefndinni sem valdi Stevie gull-, silfur- og bronsverðlaunahafa ársins í ýmsum flokkum. Almennt eru þeir sem hljóta viðurkenninguna kallaðir „the Stevies” sem dregið er af gríska orðinu fyrir krýnda, eða þá sem bera kórónu. „Þær konur sem hlutu Stevie-viðurkenningarnar í ár eru einstakar afrekskonur. Þetta er tilkomumesti hópur sem við höfum séð frá upphafi. Velgengni þeirra er hvatning fyrir aðrar konur um allan heim sem vilja koma á stofn og reka fyrirtæki, og láta til sín taka í atvinnulífinu,“ sagði Michael Gallagher, formaður og stofnandi Stevie Awards. Með Stevie-gullverðlaununum var Janne Sigurðsson útnefnd forstjóri ársins 2012 í hópi kvenna í atvinnurekstri í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku, fyrir þátttöku í uppbyggingu, eflingu og rekstri álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Frá 2005 hefur hún stjórnað mikilvægum umbótaverkefnum, lagt sig fram um að skapa öruggt vinnuumhverfi í álverinu og náð miklum árangri í að auka starfsánægju í fyrirtækinu. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í að byggja upp samfélagið á Austurlandi.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Í sendiráði Bandaríkjanna


Til móttökunnar í bandaríska sendiráðinu var m.a. boðið fulltrúum úr íslensku atvinnulífi. Á myndinni eru f.v. Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Gylfi Sigfússon, varaformaður Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins (AMÍS) og Luis E. Arreaga sendiherra.