Áfram

9. janúar 2013
Austurbrú tekur við umsjón með Sjálfbærniverkefninu

Umsjón með Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar, sem var sett á laggir árið 2004 og Þekkingarnet Þingeyinga á Húsavík hefur haldið utan um, hefur verið flutt til Austurbrúar á Egilsstöðum. Samkomulag þess efnis var undirritað eystra í dag. Austurbrú er sjálfseignarstofnun, sem stofnuð var á síðasta ári á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands.

Við stofnun Sjálfbærniverkefnisins 2004 komu saman fulltrúar ýmissa hópa, sem voru bæði fylgjandi og andvígir framkvæmdunum á Austurlandi, og tóku þeir sameiginlega ákvörðun um að fylgjast með ýmsum þáttum sem snúa að áhrifum framkvæmdanna bæði á Austurlandi og á landsvísu. Verkefnið, sem er hugsað til a.m.k. 20 ára, er að mörgu leyti einstakt í heiminum, því aldrei áður hefur jafn umfangsmikil rannsókn verið sett af stað til að kanna langtímaáhrif stórframkvæmda á umhverfi, samfélag og efnahag.
 
Í verkefninu eru 45 svokallaðir vísar rannsakaðir með reglulegri vöktun og snúa þeir m.a. að þróun í atvinnuþátttöku fólks á svæðinu, þróun fasteignaverðs, fjárhagsstöðu sveitarfélaga, gæðum skóla og almennri velferð borgaranna. Einnig er fylgst með því hvernig uppsöfnun aurs við Hálslón þróast og hvernig flúor í gróðri er háttað. Fylgst er með loftgæðum, ástandi heiðargæsa og því hvernig ferðaþjónustan þróast svo fátt eitt sé nefnt.
 
Á vefnum sjalfbaerni.is er gerð grein fyrir öllum þeim vísum sem fylgst er með. Er þess vænst að vefsíðan, sem er opin öllum og er miðpunktur verkefnisins, verði í framtíðinni vettvangur til upplýsinga um sögu verkefnisins og sjálfbærnimælinga. Einnig að hún nýtist skólasamfélagi, stofnunum, fjölmiðlum og nærsamfélagi sem mælikvarði á áhrifin á efnahag, samfélag og umhverfi.
 
Þá eru mælingarnar og niðurstöður verkefnisins ekki síður mikilvægar aðstandendum verkefnisins til að fylgjast með eigin starfsemi og markmiðum um sjálfbæra þróun.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Samningur undirritaður


Frá undirritun samkomulags á Egilsstöðum í dag, þar sem Austurbrú tók við umsjón Sjálfbærniverkefnis Landsvirkjunar og Alcoa Fjarðaáls. Frá vinstri Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri aflstöðvadeildar Landsvirkjunar, Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar, og Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls.


Sjálfbærnisíðan


Sjálfbærnisíða Alcoa og Landsvirkjunar veitir ýmsar upplýsingar um þætti sem snúa að efnahag, umhverfi og samfélagi.
skoða síðu


Austurbrú


Austurbrú er sjálfseignarstofnun stofnuð á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands og annast auk þess daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
fara á síðu Austurbrúar