Áfram

14. nóvember 2012
Álvírar frá Fjarðaáli leiða rafmagn á Vopnafirði

Álvírar frá Fjarðaáli eru í háspennustrengjum sem Rarik er að leggja þessa dagana frá aðveitustöðinni á Vopnafirði til Fiskimjölsverksmiðju HB Granda á staðnum. Strengirnir verða notaðir til að flytja rafmagn í rafskautaketil verksmiðjunnar og einnig í loftþurrkara sem er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi sem er hitaður með rafmagni. Framleiðandi háspennustrengjanna er fyrirtækið Nexans í Karmoy í Noregi.

Um er að ræða 1.170 m langan kapal og eru lagðir sex strengir, tveir fyrir hvern fasa, auk rörs fyrir ljósleiðara. Að sögn Björns Hreinssonar hjá Rarik á Vopnafirði verða strengirnir, sem eru 500 q (fermillimetrar) hver, notaðir til að flytja rafmagn í rafskautaketil verksmiðjunar og einnig í loftþurrkara, þann fyrsta sinnar tegundar á Íslandi sem er hitaður með rafmagni. Heildarnotkunin á strengjunum verður um 15 megawött þegar mest er.
 
Ekki einfalt verk að leggja kapalinn
Björn segir það alls ekki einfalt verk að leggja kapalinn þessa leið. „Strengurinn er lagður í 10 sentimetra sandlag, þar ofan á kemur svo annað 10 sentimetra sandlag, þar á eftir koma þrjár plasthlífar sem eiga að varna því að grafið sé í strenginn, ofan á hlífarnar kemur svo 20 sentimetra sandlag og þar ofan á koma svo þrír aðvörunarborðar. Strengirnir eru lagðir með 10 sentimetra millibili og smíðuðum við sérstakan máta fyrir lagninguna. Við þurftum að skjóta rörum undir veg á einum stað, bora okkur niður í gegnum klett á öðrum stað, fleiga óhemjumikið af klöppum úr skurðstæðinu og þvera tvo vegi í bænum til að koma strengjunum á sinn stað.“
 
Ánægjulegt að sjá afurðirnar í notkun
Davíð Þór Sigurðarson, verkefnastjóri útflutnings hjá Fjarðaáli, segir ánægjulegt að sjá afurðir fyrirtækisins skila sér aftur til Íslands með þessum hætti. „Við framleiðum 9,5 millimetra álvír fyrir Nexans í Noregi og yfirleitt vitum við ekki hver endanleg not hans verða. Nexans er alþjóðlegt fyrirtæki með verksmiðjur víða um heim og hefur verið viðskiptavinur Alcoa Fjarðaáls frá byrjun. Það var tilviljun að við Eðvald Garðarsson sáum kapalrúllur frá Nexans við Mjóeyrarhöfn og fórum í að rannsaka uppruna vírsins og áfangastað kaplanna. Við fengum það staðfest frá Nexans að vírinn væri frá okkur og höfðum samband við Rarik. Strengir frá Nexans hafa líka verið notaðir í sambærileg verk hjá Rarik á Eskifirði og Fáskrúðsfirði.“
 
Fjarðaál framleiðir tæp 70 þús. tonn af vír á árinu
„Fjarðaál leggur mikla áherslu á virðisaukandi framleiðslu. Hún hefur aukist ár frá ári og nemur nú um 40% heildarframleiðslunnar. Verðmætustu afurðir Fjarðaáls eru tíu kílóa stangir úr sérstökum álblöndum fyrir bílaiðnað og álvír af mismunandi sverleika. Á þessu ári verða framleidd um 67 þúsund tonn af vír, m.a. fyrir Nexans, sem er stærsti kaupandi vírs frá Fjarðaáli,“ segir Davíð Þór að lokum.

Myndir á vef Vopnafjarðarhrepps
Á vef Vopnafjarðarhrepps eru myndir frá framkvæmdunum. Sjá nánar hér.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Háspennuvír lagður í jörð
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Rúllur á hafnarbakkanum


Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Máti - sérsmíðað áhald