Áfram

22. nóvember 2012
Þrjár afrekskonur hlutu styrk úr Spretti

Haustúthlutun á styrkjum úr Spretti, afrekssjóði Alcoa og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, til efnilegra íþróttamanna, þjálfara og íþróttafélaga fór fram á Egilsstöðum um liðna helgi. Að þessu sinni voru veittir átján styrkir, samtals að upphæð 950 þúsund krónur.

Gunnar Gunnarsson formaður UÍA og Gunnlaugur Aðalbjarnarson gjaldkeri UÍA afhentu styrkina að loknu fimleikamóti Hattar í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Auk styrkjanna fengu styrkþegar Þórarinspening UÍA að gjöf, en peningurinn er kenndur við Þórarin Sveinsson, sem var einn stofnenda sambandsins.
 
Afreksstyrkir
Þrír styrkir voru veittir afreksfólki til að sækja íþróttaviðburði og æfingar. Hlutu þær Eydís Elva Gunnarsdóttir blakkona í Þrótti á Neskaupstað, Valdís Ellen Kristjánsdóttir fimleikakona og
Heiðdís Sigurjónsdóttir knattspyrnukona, báðar í Hetti á Egilsstöðum, 100 þúsund krónur hver.
 
Í meistaraflokksliði Hattar
Að sögn Eydísar Elvu koma styrkirnir að góðum notum vegna kostnaðar við keppnisferðir. „Ég leik t.d. með meistaraflokksliði Hattar í blaki auk þess sem ég spila með bæði 2. og 3. flokki. Það er því mikið um keppnisferðir með tilheyrandi kostnaði. Ég fór einnig nýlega í keppnisferð til Finnlands með U17 landsliði Íslands og ég kem til með að nýta styrkinn til þess að mæta þessum kostnaði,“ segir Eydís, þakklát fyrir styrkinn.
 
Markahæst
Heiðdís býr á Egilsstöðum. Hún hefur í gegnum tíðina æft bæði frjálsar, fimleika og fótbolta en síðustu árin einungis fótbolta. „Á þessu ári spilaði ég í fyrstu deild kvenna og var valin efnilegasti leikmaðurinn og var auk þess markahæst. Auk þess hef ég undanfarin tvö ár verið mjög margar helgar í Reykjavík á U17 landsliðsæfingum og var valin í U16 landsliðið sem keppti á Norðurlandamótinu í Noregi í byrjun júlí. Ég var einnig í Evrópumóti U17 í Slóveníu í september,“ segir Heiðdís, sem spilaði þrjá leiki í Slóveníu, var fyrirliði og skoraði þar fyrsta landsliðsmarkið sitt. Hún segir styrkinn úr afrekssjóðnum Spretti koma sér mjög vel þar sem talsverður kostnaður fylgi knattspyrnuiðkuninni. „Ég hef m.a. orðið að taka mér frí frá vinnu vegna æfinga og móta. Þó að KSÍ standi sig trúlega mun betur en önnur sérsambönd við að greiða fyrir svona landsliðsverkefni þá er fylgir því mikill kostnaður að stunda æfingar í Reykjavík og utanlandsferða. Styrkurinn kemur sér því mjög vel,“ segir Heiðdís.
 
Í landsliðinu
Valdís var í byrjun ársins valin í landsliðið í fimleikum og fór í kjölfar þess margar ferðir til Reykjavíkur vegna æfinga, sem þar fóru fram. „Þegar úthlutað var úr Spretti á Egilsstöðum síðastliðinn laugardag var janframt skrifað undir samning milli fimleikadeildar Hattar, UÍA og Menntaskólans á  Egilsstöðum vegna afrekshóps fimleika á Austurlandi og er ég í þeim hópi. Það þýðir m.a. að ég kem til með að stunda æfingar hjá Stjörnunni í Garðabæ og fara í keppnisferðir með Hetti. Þessi styrkur kemur sér vel vegna mikils kostnaðar sem hlýst af æfinga og keppnisferðum og því er ég mjög þakklát fyrir styrkinn.“
 
Iðkendastyrkir 
Auk Afreksstyrkja voru veittir 9 iðkendastyrki, samtals að upphæð 350 þúsund krónurr. Styrkina hlutu Halla Helgadóttir frjálsíþrótta- og knattspyrnuiðkandi og Ólafur Tryggvi Þorsteinsson mótorcrossiðkandi, bæði í Hetti, Ásbjörn Eðvaldsson og Jensína Martha Ingvarsdóttir, skíðaiðkendur, og Nikólína Dís Kristjánsdóttir sundiðkandi, öll í Austra á Eskifirði, Lilja Tekla Jóhannsdóttir, Þorvaldur Marteinn Jónsson og Írena Fönn Clemmensen, skíðaiðkendur í Þrótti, og loks Jens Albertsson knattspyrnuiðkandi í Neista á Djúpavogi.
 
Þjálfarastyrkir
Veittir voru þrír þjálfarastyrkir, samtals að upphæð 150 þúsund krónur. Þá hlutu Skíðafélagið í Stafdal vegna námskeiðs í verklegri skíðakennslu, Ljubisa Radovavic hjá knattspyrnudeild Hattar vegna þjálfaranámskeiðs á vegum KSÍ og Guðbjörg Björnsdóttir í sunddeild Hattar vegna dómararéttinda SSÍ.
 
Félagastyrkir
Félagastyrkir, að upphæð 150 þúsund krónur, voru veittir Golfklúbbi Norðfjarðar vegna þjálfaramenntunar og uppbyggingar unglingastarfs, Frjálsíþróttadeild Hattar í samstarfi við aðrar frjálsíþróttadeildir á Austurlandi vegna æfingabúða, og Sunddeild Hattar vegna sundæfinga fyrir 6-7 ára börn.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Styrkhafarnir


Á myndinni hér fyrir ofan, sem Gunnar Gunnarsson tók, má sjá hluta styrkhafa ásamt Gunnlaugi Aðalbjarnarsyni gjaldkera UÍA, en ófærð og leiðindaveður öftruðu nokkrum styrkhöfum að komast á afhendinguna.