Áfram

21. september 2012
Starfsfólk Alcoa heldur mikilli tryggð við fyrirtækið

Alcoa er í hópi fimmtíu fyrirtækja í Bandaríkjunum, þar sem tryggð starfsfólks við vinnuveitanda sinn er hvað mest í atvinnulífinu. Þetta kom fram í tilkynningu frá Achievers, sérfræðifyrirtæki á sviði mannauðsmála í Bandaríkjunum. Þetta er annað árið í röð sem Alcoa er á þessum lista, þar sem fyrirtækinu er hrósað fyrir forystu á sviði mannauðsmála í því skyni viðhalda og auka ánægju starfsmanna.

„Við metum starfsfólk okkar og hæfileika þess mjög mikils og þar af leiðandi þá miklu tryggð sem starfsmenn sýna Alcoa,“ sagði Mike Barriere, aðstoðarforstjóri mannauðsmála hjá Alcoa. Hann segir Alcoa m.a. nota tölfræðilegar aðferðir við að finna réttu einstaklingana í hópi starfsmanna sem sýni þá forystuhæfileika sem nauðsynlegir eru í hin margvíslegu störf sem unnin eru á starfsstöðvum þess.
 
Til að mæla starfsánægju og tryggð starfsmanna við fyrirtæki skoðar Achievers átta meginatriði þegar fyrirtækin eru valin á listann: Samskiptamál, forystuhæfileika, vinnustaðamenningu, hvatakerfi til að umbuna og veita viðurkenningar, faglega og persónulega þróun í starfi, áreiðanleika og hæfni, framtíðarsýn og gildi og loks samfélagslega ábyrgð.
 
„Þau fyrirtæki sem leggja mikla rækt við starfsfólk sitt, eru líklegri til að skila betri fjárhagslegum árangri, þau laða til sín hæfara starfsfólk og veita viðskiptavinum betri þjónustu sem síðan leiðir til aukinnar ánægju viðskiptavina með fyrirtækið,“ segir Razor Suleman, stofnandi og stjórnarformaður Achievers. „Þessi fyrirtæki eru grundvallarfyrirmyndir fyrir önnur fyrirtæki, sem vilja auka starfsánægju og bæta fjárhagslegan árangur.“

Sjá nánari upplýsingar hér.