Áfram

27. ágúst 2012
Á þriðja þúsund í afmæli Fjarðaáls

Fjölmenni var í afmælisveislu Alcoa Fjarðaáls, sem hélt upp á 5 ára starfsafmæli sitt í blíðskaparveðri sunnudaginn 26. ágúst. Vel á þriðja þúsund manns heimsóttu álverið enda fjölbreytt dagskrá í boði fyrir unga sem aldna.

Boðið var upp á reglulegar skoðunarferðir um álverið, sem margir gestir nýttu sér. Lúðrasveit Norðfjarðar flutti nokkur lög og Bergþór Pálsson söng með karlakórnum Glað frá Eskifirði. Á útisviði lék rokkhljómsveit álversins, Álbandið, og Slökkvilið Fjarðabyggðar sýndi tækjaflotann á meðan yngsta kynslóðin lék sér í hoppkastala og gæddi sér á ís og sykurfrauði. Grínistar og töframenn voru á staðnum og frá Þjóðleikhúsinu komu Lilli klifurmús og Mikki refur, sem gerðu stormandi lukku. Einnig flutti hljómsveitin Coney Island Babies  lög af nýjum geisladiski sínum.
 
Í matsal álversins var hvert sæti skipað en þar var boðið upp á veitingar. Þar lék hin gamalgróna hljómsveit HildirHans ljúfa tóna auk þess sem sýndir voru listmunir úr áli eftir íslenska hönnuði.
 
Í ávarpi sem Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, flutti í upphafi afmælisveislunnar, sagði Janne að hún væri stolt yfir því tækifæri að fá að taka virkan þátt í „fæðingu og uppvexti“ álversins sl. fimm ár og koma fyrirtækinu á þann stað, þar sem það er nú.

„Fimm ára afmælisbarn á fjölda frænka og frænda og líka afa og ömmur.  Það gildir líka um Fjarðaál.  Það á stóra fjölskyldu á Austurlandi sem öll hefur staðið við bakið á fyrirtækinu og hjálpað til við uppvöxtinn. Það hafa allir hjálpast að við að koma Fjarðaáli á legg og skapa þær aðstæður að það geti haldið áfram að vaxa og dafna um ókomna tíð.“
 
Um kvöldið voru haldnir tónleikar í Tónlistarmiðstöð Austurlands í tilefni af 120 ára fæðingarafmæli Inga T. Lárussonar. Tónleikarnir voru í boði Fjarðaáls og var fullt út úr dyrum. Lauk þar með formlega afmælishátíð Alcoa Fjarðaáls.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Töfrar á Reyðarfirði


Töframaðurinn Ingó fékk fulla athygli hjá krökkunum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Himnesk skemmtun!


Uppblásnar rennibrautir og hoppukastalar tryggðu að börnin skemmtu sér vel.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Unaðslegt sykurfrauð


Þessar stúlkur gæddu sér á gómsætu sykurfrauði eða „candy floss" eins og það kallast á ensku.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Fullkominn tækjabúnaður


Í samvinnu við álverið hefur Slökkvilið Fjarðarbyggðar komið sér upp fullkomnum tækjabúnaði sem vakti athygli gesta.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ungur gestur


Þessi ungi maður fór í skoðunarferð um álverið og þurfti því að vera með hjálm - sem var hluti af ævintýrinu.