Áfram

25. maí 2012
Einstakt verkefni

Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar var sett á laggirnar árið 2004, en þar komu saman fulltrúar ýmissa hópa sem voru bæði fylgjandi og andvígir framkvæmdunum á Austurlandi og  tóku sameiginlega ákvörðun um að fylgjast með ýmsum þáttum sem snúa að áhrifum þeirra bæði á Austurlandi og á landsvísu.  Á fundi Festu og Þekkingarnetsins  sem nýlega var haldinn í Reykjavík, var í raun um fyrstu formlegu kynningu á verkefninu að ræða, en verkefnið mun standa yfir í að minnsta kosti 20 ár.  Rúmlega 40 manns komu á fundinn.

Guðlaug Gísladóttir verkefnisstjóri Sjálfbærniverkefnisins sagði á fundinum að verkefnið væri einstakt í heiminum,  því aldrei áður hefði jafn umfangsmikil rannsókn verið sett af stað til að kanna langtímaáhrif stórframkvæmda á umhverfi, samfélag og efnahag.  Verkefnið tekur til rannsóknar á langtímaáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa Fjarðaáls bæði á Austurlandi og á landsvísu. Þeir þættir sem ákveðið var að fylgjast með,  kallast vísar.
 
Alls eru 45 vísar rannsakaðir með reglulegri vöktun.  Þeir snúa til dæmis að þróun atvinnuþáttöku fólks á svæðinu, þróun fasteignaverðs, gæðum skóla og almennri velferð borgaranna. Einnig er skoðað hvernig uppsöfnun aurs við Hálslón þróast, hvernig flúror í gróðri er háttað, loftgæði eru mæld reglulega og ástand heiðargæsa svo fátt eitt sé nefnt. Þá er líka fylgst með því hvernig ferðaþjónustan þróast og með fjárhagsstöðu sveitarfélaga.  Eins og áður segir er um langtímaverkefni að ræða sem mun standa í áratugi.  Það er því of snemmt að fullyrða nokkuð um niðurstöðurnar.
 
Á vefnum sjalfbaerni.is, er gerð grein fyrir öllum þeim vísum sem fylgst er með. Sem dæmi um þau áhrif, sem nú þegar sér stað, má nefna eftirfarandi:
  • Íbúum Mið-Austurlands hefur fjölgað um 1055 frá því að framkvæmdir hófust við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Þeir voru 8025 í lok árs 2002 og 9080 í lok árs 2011. Á árunum fyrir framkvæmdir fækkaði fólki á sama svæði, eða um 521 á árunum 1997-2002.
  • Fasteignaverð á Austurlandi virðist rísa hraðar en landsbyggðin í heildina á milli 2009 og 2010.
  • Fyrir árið 2004 var atvinnuleysi alltaf meira á Austurlandi en á landsvísu. Frá 2004 hefur atvinnuleysi hins vegar yfirleitt verið minna á Austurlandi en á landsvísu. Á árinu 2010 var atvinnuleysi rúmlega helmingi minna á Austurlandi en á landsvísu, eða um 4,4%, samanborið við 8,9% á Íslandi að meðaltali.
  • Heiðagæs hefur fjölgað ört undanfarinn áratug. Hálslón olli ekki fækkun heiðagæsa á svæðinu þrátt fyrir skerðingu beitlands og þótt tæplega 500 hreiðurstæði hyrfu við myndun Hálslóns.
 
Fjölmarga aðra vísa má skoða á vefnum sjalfbaerni.is. Þar kemur t.d. fram að árið 2007 sinntu 109 starfsmenn eða 24,1% starfsmanna Fjarðaáls samfélagsvinnu í samfélagsverkefnum Alcoa. Fjöldi starfsmanna sem taka þátt í sjálfboðavinnu í samfélaginu hefur svo vaxið jafnt og þétt og árið 2011 tóku 363 starfsmenn eða 76% starfsmanna þátt í sjálfboðavinnu.
 
Nánari upplýsingar:
 
Vefsíðan sjalfbaerni.is
 
Frétt Festu um kynningu á Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar