Áfram

25. maí 2012
Ál leikur mikilvægt hlutverk í umhverfismálum

Á ársfundi Samáls, samtaka álframleiðenda á Íslandi, sem haldinn var nýlega, var fjallað um ál, umhverfi og ábyrgð fyrirtækja. Á fundinum, sem Ruth Elfarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Alcoa Fjarðaáli, stýrði, fluttu ávarp þau Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls og formaður Samáls, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Will Savage, framkvæmdastjóri Samtaka breskra álframleiðenda, og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samáls.

Á fundinum kom m.a. fram að á hverju ári sparar notkun áls í samgöngum um 70 milljónir tonna af gróðurhúsaloftegundum og enginn vafi leikur á því að hægt er að gera betur með því að auka notkun áls í iðnaði. Ábyrgð fyrirtækja í umhverfismálum leikur því sífellt stærra hlutverk í áskorunum ríkja heims gagnvart loftslagsvandanum.
 
Ísland leggur mikið af mörkum
Í þessu samhengi leggur Ísland mikið af mörkum í tvennum skilningi. Annars vegar hefur áliðnaðurinn hér á landi minnkað losun gróðuhúsaloftegunda um 25% á hvert framleitt tonn á síðastliðnum áratug og hefur sett sér það markmið að bæta árangur sinn enn frekar. Hins vegar er mikið af áli framleitt á Íslandi sem notað er í vörur um allan heim. Ál er létt, hefur fjölþætta notkunarmöguleika, er sterkt og að auki 100 prósent endurnýtanlegt án þess að gæði málsmins rýrni við endurvinnslu. Þess vegna eru vörur framleiddar úr áli mjög til þess fallnar að draga úr magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar. Hér spilar stórt hlutverk notkun áls í samgönguiðnaði, hvort sem litið er til framleiðslu bíla, járnbrautalesta, flugvéla eða farartækja á sjó, en einnig álnotkun í umbúðaiðnaði vegna lengri geymslutíma og minni sóunar, og byggingariðnaði vegna betri orkunýtni og minni orkusóunar. Í framleiðslu raftækja myndi aukin álnotkun margfalda endurnýtingu þeirra að loknum líftíma vegna þess hver ál er verðmætur málmur.
 
Lítil losun á Íslandi
Ragnar Guðmundsson sagði frammistöðu íslensku álveranna í umhverfismálum hafa vakið athygli á heimsvísu. Hann nefndi sem dæmi að losun gróðurhúsalofttegunda á hvert framleitt tonn hafi lækkaði um 6 prósent 2011 og frá árinu 1990 nemi samdrátturinn 75 prósentum. Einnig kom fram í máli Ragnars að flúorlosun lækkaði um 6 prósent á hvert framleitt tonn 2011 og frá 1990 nemi samdráttur flúorlosunar um 93 prósentum. „Þessu til viðbótar þá nýtur íslenskur áliðnaður þess að nota hreina og endurnýjanlega orkugjafa. Þess vegna er heildarlosun tengd íslenskum áliðnaði, að meðtalinni losun vegna orkuframleiðslu, með því lægsta sem þekkist í heiminum,“ sagði Ragnar Guðmundsson, formaður Samáls.
 
Hægt að auka virðið
Á árfundinum kom fram að unnt er að auka verðmæti núverandi álframleiðslu hér á landi með aukinni virðisaukandi starfsemi. Að mati forystumanna í iðnaðinum er ennfremur hægt að auka grunnframleiðslu núverandi eininga samfara tækniþróun, og bæta við nýjum framleiðslueiningum eins og gert hefur verið á liðnum árum. Þá er ennfremur ljóst að áliðnaðurinn hér á landi hefur leitt af sér stóran heimamarkað fyrir fjölbreytta starfsemi þjónustufyrirtækja, sem mörg hver hafa sérhæft sig í þjónustu við áliðnaðinn, bæði hér á landi og erlendis.
 
Það munar um minna
Á fundinum kom fram að útgjöld áliðnaðarins hér á landi námu um 94 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 14 milljarða króna frá 2010. Verðmæti álframleiðsu á árinu 2011 var liðlega 230 milljarðar króna og samkvæmt hagtölum nam útflutningur á áli um 40 prósentum af heildarverðmæti útflutningsvara. Þá nam framlag til landsframleiðslu um 90 milljörðum króna. Fjárfestingar áliðnaðarins á síðasta ári voru ríflega 28 milljarðar króna og tengdra greina um 14 milljarðar. Því nemur fjárfesting tengd áliðnaði í heild um 43 milljörðum króna eða 28 prósentum af heildarfjárfestingum atvinnuveganna.
 
Íslensk álfyrirtæki framleiddu 806 þúsund tonn af áli 2011, þau greiddu liðlega 40 milljarða króna fyrir raforku og keyptu vöru og þjónustu fyrir um 33 milljarða króna á árinu. Alls greiddu álfyrirtækin um 14 milljarða króna í laun og 5,6 milljarða króna í opinber gjöld.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Frá ársfundi Samáls


Við borðið í forgrunni eru f.v. Erna Indriðadóttir, Fjarðaáli, Will Savage, framkvæmdastjóri Samtaka breskra álframleiðenda, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samáls, Ruth Elfarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Fjarðaáli, og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa í Evrópu.