Áfram

11. maí 2012
Góðir gestir í heimsókn hjá Alcoa Fjarðaáli

Ríkisstjórnin fundaði á Egilsstöðum á þriðjudaginn og skrifaði m.a. undir samninga um verkefni og framkvæmdir á Austurlandi fyrir rúman milljarð króna. Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra og settur iðnaðarráðherra notaði tækifærið og heimsótti Fjarðaál í leiðinni ásamt aðstoðarmanni sínum Gunnari Tryggvasyni.

Þau skoðuðu álverið og áttu fund með Janne Sigurðsson forstjóra Alcoa Fjarðaáls, Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi, og framkvæmndastjórn Fjarðaáls, en eitt þeirra verkefna sem ríkisstjórnin ákvað að veita fjármagni til, er á sviði þróunar fullvinnslu á áli.
 
Á fundinum kynntu Janne og Magnús starfsemi Alcoa Fjarðaáls og mögulega framtíðarþróun í starfsemi þess, auk þess sem rætt var um starfsskilyrði og vaxtarmöguleika áliðnaðarins hér á landi. Sýndar voru glærur þar sem kom fram hversu umhverfisvænt ál er í allri notkun vegna léttleika málmsins, fjölbreyttra nýtingarmöguleika og 100 prósent endurvinnsluhæfni málmsins. Þess má geta að um þrír fjórðu alls áls sem framleitt hefur verið frá upphafi eru enn þann dag í dag í notkun í heiminum og aðeins 5% af þeirri orku sem fer í að framleiða ál þarf til að endurvinna það.
 
Að lokinni skoðunarferð um álverið snæddu gestirnir ásamt framkvæmdastjórninni kvöldverð í mötuneyti Alcoa Fjarðaáls.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra, ásamt Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra Alcoa á Íslandi (t.v.) og Smári Kristinssyni, framkvæmdastjóra steypuskála (t.h.)