Áfram

26. maí 2012
Samfélagsdagur á Austurlandi

Um 350 sjálfboðaliðar úr Fjarðabyggð, af Fljótsdalshéraði og frá Seyðisfjarðarkaupstað, unnu að margvíslegum sjálfboðaliðaverkefnum í sumarblíðunni á Austurlandi í dag.  Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls skipulögðu af þessu tilefni 4 ACTION verkefni, sem styrkt eru af Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum.  En sjálfboðaliðastarf er fastur liður í starfsemi fyrirtækisins um allan heim.

Meðal verkefna sem unnið var að á Austurlandi í dag, voru fegrun í kringum sundlaugina á Eskifirði, lagning göngustígs frá Steinasafni Petru niður að höfninni á Stöðvarfirði, gróðursetning og lagfæringar umhverfis strandblakvöllinn í Neskaupsstað. 
 
Lagfæringar voru gerðar á  Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum og hópur fólks tók sig saman um að gera miðbæðinn á Egilsstöðum meira aðlaðandi fyrir gesti og gangandi. Leikfélagið á Seyðisfirði sýndi valda þætti úr verkinu Pelikaninn á sjúkrahúsinu og  við Gálgaklett á Egilsstöðum var sett upp merking, en þar var Valtýr á grænni treyju veginn. 
 
Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Seyðisfjarðarkaupstaður og Alcoa Fjarðaál efndu til samfélagsdagsins til að hvetja fólk til að koma saman og leggja samfélaginu lið með sjálfboðavinnu í einn dag.  Eftir því sem aðstandendur best vita, hafa svo mörg sveitarfélög og fyrirtæki ekki áður tekið sig saman um verkefni af þessum toga.  Að vinnu lokinni var síðan útigrill fyrir þátttakendur í góða veðrinu. 
 
ACTION verkefnin fjögur sem unnir voru af starfsmönnum Fjarðaáls, voru á Egilsstöðum, Seyðisfirði og í Fjarðabyggð.  Með því að leggja fram tiltekinn fjölda vinnustunda í sjálfboðaliðastarfi í sínu samfélagi, geta starfsmenn  sótt um  styrk úr Samfélagssjóði Alcoa í Bandaríkjunum  til að leggja í verkefnið sem unnið var.  Hæsti styrkur sem er í boði nemur 375.000 krónum.  Starfsmenn Fjarðaáls hafa verið afar virkir í sjálfboðaliðastarfi á vegum ýmissa samtaka.  76% starfsmanna fyrirtækisins tóku þátt í sjálfboðaliðaverkefnum í fyrra  og öfluðu þannig 15 milljóna króna í styrki til margvíslegra félagasamtaka og verkefna.
 
Hér til hliðar má sjá nokkrar myndir frá verkefnunum, og fleiri munu bætast við innan skamms.
 
Fjarðaál þakkar Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað fyrir samvinnuna.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Norðfjörður: Strandblak


Á Neskaupstað mættu um 30 manns, að meðtöldum börnum og ungmennum, til þess að fegra umhverfi útiblakvallarins. Árið 2012 er appelsínuguli liturinn ríkjandi í ACTION-verkefnum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Geggjað veður!


Sólin baðaði Austfirðinga þennan daginn, 23°C hiti, og ungviðið naut sín í sandinum á strandblakvellinum á meðan foreldrar þeirra unnu í sjálfboðaliðavinnu fyrir betri framtíð.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Reyðarfjörður: betri leikaðstaða


Á Reyðarfirði tók foreldrafélag grunnskólans sig saman og bætti aðstöðu krakkanna með góðri aðstoð starfsmanna Fjarðaáls og annarra sjálfboðaliða.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Egilsstaðir: Frábær aðstaða til íþrótta


Á Egilsstöðum var unnið ótrúlega gott verk fyrir íþróttaaðstöðu barna og fullorðinna, á vegum Hattar, Fljótsdalshéraðs og Fjarðaáls. Til verkefnisins runnu um 340 þúsund krónur frá Samfélagssjóði Alcoa.