Áfram

8. maí 2012
Alcoa eitt af 100 grænustu fyrirtækjum Kína

Alcoa var nýlega útnefnt sem eitt af 100 grænustu fyrirtækjunum í Kína, en listinn birtist í tímaritinu Green Company Magazine þar í landi. Tímaritið birtir árlega lista yfir sjálfbærustu fyrirtækin þar í Kína og er þetta annað árið í röð sem Alcoa er hrósað fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum með sæti á listanum.

Tímaritið stóð fyrir gerð listans í samstarfi við Samtök frumkvöðla í Kína og Daonong Center for Enterprise, sem er leiðandi nýsköpunarmiðstöð og hugmyndabanki í þróun frumkvöðlastarfsemi í landinu.
 
Í tilfelli Alcoa var til þess litið hve ríka áherslu fyrirtækið leggur sjálfbærni í rekstri með innleiðingu á nýjustu tækni, hnitmiðaðri stjórnun í öllum þáttum starfseminnar til að draga úr myndun gróðurhúsalofttegunda og fjárfestingum í rannsóknaverkefnum á sviði umhverfis- og samfélagsmála sem eru til þess fallin að geta nýst í starfseminni síðar.
 
Alcoa í Kína
Alcoa hefur fjárfest fyrir tugi milljóna dollara í Kína frá árinu 1993. Framleiðsla byrjaði 2004 og er fyrirtækið nú stærsta fjölþjóðlega álfyrirtækið þar í landi. Alcoa er með starfsemi í Peking, Shanghai, Qinhuangdao og Kunshan, Suzhou, Guangzhou og Hong Kong. Verksmiðjur Alcoa í þessum heimshluta framleiða m.a. valsað ál og tilbúnar vörur, svo sem ýmsar gerðir festinga og íhluta fyrir samgöngu- og geimiðnaðinn, rafeindaiðnað, umbúðaiðnað og margt fleira.