Áfram

31. maí 2012
Central Park í NY og Alcoa í samstarf um sorphirðu í almenningsgarðinum

Alcoa og Samfélagssjóður Alcoa hafa gert samstarfssamning við Central Park Conservancy í New York, sem er sjálfseignarstofnun sem annast umhirðu og viðhald í þessum stærsta og vinsælasta almenningsgarði heims.

Samningurinn felur í sér að Alcoa og Samfélagssjóðurinn munu leggja garðinum til framlag að andvirði 81 milljón króna til að hanna ný sorpílát og endurvinnslutunnur sem eiga að bæta umgengni í garðinum og flokkun á endurvinnanlegum úrgangi. Sett verða upp ný ílát úr áli fyrir pappír, flöskur og áldósir og er vonast til að fyrirkomulagið verði fyrirmynd fyrir stjórnendur annarra almenningsgarða.
Umferð fólks um Central Park hefur þrefaldast frá árinu 1980 og fara nú um 40 milljónir gesta um garðinn á ári. Að sama skapi hefur sorp aukist gríðarlega og á árinu 2010 féllu til yfir tvö þúsund tonn af óendurvinnanlegu sorpi.
 
Nýtt fyrirkomulag
Núverandi ruslaílátum í garðinum verður skipt út fyrir ný og 100 prósent endurvinnanleg ílát úr áli, sem hönnuð verða hjá Landor Associates. Þeim verður komið fyrir á áberandi stöðum og verða upplýst til að stuðla að betri skilum á mismunandi úrgangi í viðeigandi ílát. Hyggst Samfélagssjóðurinn leggja til rúmar 63 mkr. til verkefnisins, en Alcoa mun leggja til ál að andvirði um 18 mkr. til framleiðslu á ílátunum og nauðsynlegum fylgihlutum, auk þess að veita Central Park aðgang að sérfræðiráðgjöf frá Alcoa Technical Center í Pittsburgh.
 
Fyrirmynd annarra garða
„Við erum mjög spennt yfir þessu áhugaverða samstarfi við Central Park vegna þess að afrakstur þess er til þess fallinn að innleiða alveg nýja upplifun af viðveru þeirra milljóna gesta sem heimsækja garðinn árlega,“ sagði Klaus Kleinfeld, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa af þessu tilefni. Hann segir að markmiðið með nýju ílátunum og fyrirkomulaginu í heild sé að innleiða nýja staðla fyrir aðra almenningsgarða í heiminum.
 
Betri stjórn
Af sama tilefni sagði Doug Blonsky, forstjóri og stjórnarformaður Central Park Conservancy, að sá mikli fjöldi gesta sem heimsæki garðinn geri að verkum að nauðsynlegt sé að hafa eins góða stjórn á sorphirðumálunum og kostur er með tilliti til sjálfbærni og skilvirkni. Hann sagði að aðstoð Alcoa við verkefnið sé þakkarvert framlag til að viðhalda ánægju þeirra nærri fjörutíu milljónum gesta sem komi í garðinn á hverju ári.
 
Þarf að auka flokkun í Bandaríkjunum
Alcoa og áliðnaðurinn hafa sett sér það markmið að auka endurvinnsluhlutfall áldósa í Bandaríkjunum í 75% á næstu þremur árum. Í því sambandi má nefna að Alcoa og Samfélagssjóður Alcoa hafa dreift meira en 75 þúsund endurvinnslutunnum til ýmissa sveitarfélaga í landinu og fjárfest til þess 3,5 milljónum dollara sl. fimm ár.
 
Nánari upplýsingar
Fréttin um samstarf Alcoa og Central Park  
Upplýsingar um The Central Park Conservancy 
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Doug Blonsky, forstjóri og stjórnarformaður Central Park Conservancy, og Klaus Kleinfeld, forstjóri og stjórnarformaður Alcoa á sjálfboðavinnudegi Alcoa í Central Park.