Áfram

1. mars 2012
Starfsmenn álvers í Miðausturlöndum þjálfaðir hér á landi

Alcoa og sádí-arabíska námufyrirtækið Ma’aden byggja um þessar mundir eitt af stærri álverum heims í Sádí-Arabíu í Ras Al-Khair á austurströnd konungdæmisins. Þetta er í fyrsta sinn sem Alcoa tekur þátt í að reisa álver í Miðausturlöndum.

Framleiðsla á að hefjast á næsta ári og af því tilefni er væntanlegur hingað til lands nk. sunnudag þrjátíu manna hópur starfsnema frá Sádí-Arabíu, sem fá munu þjálfun hjá Fjarðaáli í nokkra mánuði undir handleiðslu reyndra starfsmanna álversins við Reyðarfjörð.
 
Þeir sem koma til Fjarðaáls hafa nú þegar lokið tólf mánaða löngu almennu námi í stóriðjufræðum í heimalandinu og var boðið að fara til Íslands í þjálfun. Í nemahópnum eru framkvæmdastjóri kerskála, framleiðslustjóri, framleiðsluverkfræðingur, leiðtogar, framleiðslustarfsmenn kerskála og iðnaðarmenn.
 
Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, segir mikla ánægju ríkja með þessa heimsókn enda felist í henni mikið traust og viðurkenning á því hve Fjarðaál standi framarlega í áliðnaðinum. „Við erum stolt yfir því að hafa verið valin til að veita þessa grunnþjálfun.“
 
Ólíkir menningarheimar
Nemarnir frá Sádí-Arabíu hafa litla eða enga reynslu af vestrænni menningu og við undirbúning verkefnisins er gert ráð fyrir ólíkum menningarheimum, til dæmis er varðar afstöðu til trúmála, stéttaskiptingar, þátttöku kvenna á vinnumarkaði og fleira. Janne segir að hópurinn hafi nú þegar hlotið kynningu á íslenskri menningu en það sé ekki síður mikilvægt að starfsmenn Fjarðaáls undirbúi sig vel. Þess vegna munu væntanlegir yfirmenn álversins í Ras Al-Khair koma á undan til landsins til að undirbúa komu hópsins. „Við munum ekki breyta menningu Fjarðaáls vegna þessa verkefnis, en það er mikilvægt að allir sameinist um að sýna fyllstu kurteisi til að dvöl gestanna verði í senn lærdómsrík og ánægjuleg. Á sama hátt munum við einnig læra af heimsókninni,“ segir Janne.
 
Eitt af stærri álverum heims
Álverið í Sádí-Arabíu er hið fyrsta sem Alcoa tekur þátt í að reisa og reka í Miðausturlöndum og verksmiðjan verður ein sú tæknilega fullkomnasta í heiminum. Álverið er hluti af stærra verkefni sem samanstendur af báxít námum, súrálsverksmiðju, álveri og völsunarverksmiðju.  Álverið mun í fyrsta áfanga framleiða um 740.000 tonn af áli á ári og mun Alcoa sjá því fyrir súráli til að byrja með.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ólíkt Reyðarfirði


Myndin, sem tekin var á byggingarstað álversins og flatvölsunarverksmiðjunnar í Ma'aden, sýnir hvernig aðstæðurnar eru í eyðimörkinni í Sádi Arabíu, en þær eru gerólíkar íslenska landslaginu í Reyðarfirði.